föstudagur, nóvember 19, 2004

Þegar ég bjó í Danmörku (0-11 ára) fór ég stundum í móðurmálsskóla í Jónshúsi á laugardögum. Einn góðan veðurdag (því það er alltaf gott veður í Danmörku), eftir vel heppnaða móðurmálskennslustund, var ég á röltinu í átt að strætóstoppistöðinni þegar stelpa á mínum aldri heilsaði mér. Hún var með mér í íslenskutímunum, enda var hún sjálf íslensk og var nýflutt til Danmerkur með fjölskyldu sinni. "Ég er að fara í sömu átt og þú" sagði hún. "Eigum við að vera samfó?"
Ég man enn hvað ég var yfir mig hissa. Samfó? Hvað var nú það? Síðar spurði hún hvort ég vildi vera memm og ég bara horfði á hana stórum augum. Memm?
Þegar fjölskylda mín fór síðan að pæla í að flytja aftur til Íslands voru orðin samfó og memm hluti af ástæðunni fyrir því að ég strauk að heiman í þrjá klukkutíma í mótmælaskyni.

Engin ummæli: