fimmtudagur, desember 09, 2004

Bæjarferðin fór nú ekki eins og ætlað var.
Var á Laugaveginum í góðu stuði, gangandi framhjá Gallerí Sautján, þegar ég sé ungan mann með stóra tösku á harðahlaupum út úr 17 Jeans, beint í flasið á gömlu pari sem var einmitt að labba framhjá. Hann hljóp síðan áfram í átt að Hlemmi og á eftir honum kom ung afgreiðslustúlka, hrópandi eitthvað sem ég heyrði ekki. Þetta leit afar grunsamlega út svo ég hljóp yfir götuna, án þess að hugsa, og reyndi að stöðva hann. Ég togaði í töskuna og sagði eitthvað á borð við "Hey!". Þá tók hann fram langt járnrör á hlaupunum og slengdi því í magann á mér, rétt fyrir ofan vinstri mjaðmabeinið. "Ááá!!!" Mér brá svo mikið að ég sleppti töskunni og þá slapp hann og þaut fyrir hornið á Laugavegi/Snorrabraut með töskuna meðferðis.
Á meðan stóð ég á miðjum Laugaveginum með tárin rennandi niður kinnarnar - ekki vegna sársauka.. ég var bara svo hrikalega undrandi! Ég var slegin í magann með járnröri!?
Ég færði mig yfir á gangstéttina þar sem gamla parið og þrjár 17 Jeans afgreiðslustelpur tóku á móti mér. Ég þerraði tárin og fékk að heyra alla söguna. Málið var víst að strákurinn hafði komið inn í búðina, með töskuna meðferðis, og reynt að láta einhverjar tvær vinkonur sínar taka við henni. Þær vildu ekkert með hann hafa, en ein afgreiðslustúlkan sá ofan í töskuna. Við henni blasti gomma af dýrum skartgripum, og þegar hann varð var við að hún hafði séð þá tók hann kipp og reyndi að flýja. Önnur afgreiðslustelpa reyndi að standa fyrir útidyrahurðinni og reyndi að kippa í töskuna. Þá dró hann fram rörið góða og þrykkti því á handarbakið á henni. Svo þaut hann út og í flasið á gamla parinu. Restina af sögunni þekkti ég.. og nú var löggan komin á staðinn. Hún tók niður lýsingu á manninum og nöfn okkar og kennitölur. Í ljós kom að hann hafði rænt skartgripabúð neðar í götunni!
Hvað er að gerast?!
Hvað ef hann hefði slegið stelpuna eða mig fastar með rörinu? Hvað ef hann hefði verið með hættulegra vopn en stálrör? Hníf?
Af hverju missti ég? Hvenær breyttist Reykjavík í stað þar sem skartgriparæningi lemur þig í magann með stálröri um hábjartan dag?

Engin ummæli: