fimmtudagur, janúar 06, 2005

Skólinn byrjar ekki aftur hjá mér fyrr en eftir ár og eilífð! Það eru heilir ellefu dagar eftir af jólafríinu mínu.. og hef ég ekki grænan grun um hvað gera skuli við þá. Síðustu fjóra daga hefur mér tekist að gera eitthvað af viti - fór á hestbak, las, fór á hestbak, las, fór í bíó, las, svaf, fór á hestbak og las. En í morgun var eins og ég væri þurrausin öllum góðum hugmyndum svo ég endaði á því að horfa á E! í þrjá tíma fyrir hádegi og fór svo í Smáralindina til að skipta jólagjöf eftir hádegi.
Jólagjöfin frá ömmu var afar fallegur, ökklasíður, þröngur, rauður silkináttkjól úr Debenhams.. en þar sem ég ímyndaði mér að hann væri afar ópraktískur til svefns (maður þarf ekki að þjást af innilokunarkennd til að fatta svoleiðis), ákvað ég að skipta honum í eitthvað styttra og "bekveeemare". Þegar í nær- og náttfatadeildina var komið sá ég strax nokkra góða og fór að máta. Þegar sá eini rétti var fundinn fór ég galvösk að kassanum með kjólinn (og par af eyrnalokkum, því nýi kjóllinn var ódýrari en sá gamli.. og ekki lætur maður sexhundruð krónur fara til spillis) og ætlaði að borga herlegheitin með nótunni sem ég hafði fengið þegar ég skilaði hinum fagra rauða - en babb kom í bátinn. Verðið sem afgreiðslukonan með gervibrosið tilkynnti mér hljómaði allt of hátt til að geta verið rétt. "Hvernig getur það verið?" spurði ég. Þá benti hún og fjasaði í nokkra stund þar til hún sá að vitlaust eyrnalokkaverð var skráð í kassanum og dró það frá. Enn var verðið í hærra kantinum svo ég spurði hvort náttkjóllinn hefði verið rétt sleginn inn. Stingandi var það augnráð sem ég hlaut í staðinn. En að lokum (eftir að tvær aðrar gervibrosandi konur höfðu stúderað gögnin) kom í ljós að kjóllinn hafði verið merktur of lágu verði á rekkanum.. en "fyrst það er búið að vera svo mikið vesen" þá fékk ég hann á því verði.
Hah!! Þetta var frábær bloggfærsla.

Engin ummæli: