laugardagur, maí 07, 2005

P - Prins Valiant, hetja æsku minnar. Ég fékk fyrstu tvö heftin í sex ára afmælisgjöf frá vinkonu minni, og mig minnir að ég hafi orðið skotin í Valiant strax við fyrstu sýn (hvort sú minning sé sönn eða ímyndun er hinsvegar umdeilanlegt). Eftir því sem árin liðu bættust alltaf fleiri og fleiri hefti í safnið, og á ég nú 37 af 40. Næst þegar ég fer til Danmerkur ætla ég að kaupa síðustu heftin þrjú + 13. heftið, en það á ég bara á íslensku.



Prins Valiant sögurnar gerast á tímum Arthúrs konungs og er atburðarásin (afar) lauslega byggð á sagnfræðilegum heimildum. Valiant er til dæmis látinn taka þátt í ýmsum styrjöldum og stríðum sem áttu sér stað í raun og veru. Valiant er ævintýragjarn prins af Thule (sem í sögunum er staðsett í Noregi) og er einn af riddurum hringborðsins, nýtur mikils trausts Arthúrs konungs og er besti vinur riddarans Gawain. Valiant vex úr grasi eftir því sem heftunum fjölgar, verður ástfanginn af Aletu, drottningu Þokueyjanna, rænir henni (ó, svo rómantískt!) og giftist. Stuttu síðar bætast svo börn í sarpinn.
Höfundur Prins Valiant bókanna er Hal Foster (Harold R. Foster). Hann hóf að teikna seríuna 13. febrúar (afmælisdagur Huldu!) árið 1937 og teiknaði eina blaðsíðu á viku hverri í 35 ár. Þegar aldurinn færðist yfir tók samstarfsmaður Foster, John Cullen Murphy, við teikniríinu en Foster var handritshöfundur allt til dauðadags árið 1982.

Engin ummæli: