fimmtudagur, október 27, 2005

Í byrjun júní keypti ég mér timbur og tvær spónaplötur í Byko. Við pabbi bárum það upp í risið, uppfull af rúmsmíðerís-plönum. Timbrið stendur enn óhreift upp við vegg í svefnherberginu og ég sef á tveimur dýnum á gólfinu. Það er alveg hreint ágætt reyndar. Eftir að ég fékk tvöfalt lak í afmælisgjöf er ég hætt að geta ýtt dýnunum í sundur í svefni og vakna því ekki lengur á gólfinu.

Nú er að koma vetur og það er orðið fjári kalt uppi í risinu góða. Það bætir ekki úr skák að plöturnar og timbrið standa akkúrat fyrir eina ofninum í svefnherberginu. Í nótt vaknaði ég um þrjúleytið vegna þess að mér var svo kalt og klæddi mig í föðurland og síðerma ullarpeysu. Það ætti ekki að vera nauðsynlegt!

Nú er tvennt í stöðunni. Annaðhvort færi ég plöturnar og timbrið frá ofninum að hinum veggnum, eða ég tek mig saman í andlitinu og klára verkið sem hófst í byrjun júni. Það ætti nú ekki að taka meira en einn sunnudag að smíða eitt rúm. Baráttan við innra letidýrið er hafin.

Engin ummæli: