þriðjudagur, október 25, 2005

Þriðji hluti ferðasögunnar. New York, part III

Eftir Do Hwa lá leiðin á grínklúbb í Greenwich Village. Við höfðum lesið margt gott um Comedy Cellar en fengum ekki sæti nema á miðnætursýninguna. Á meðan við biðum létum við narra okkur á annan grínklúbb, Sal´s Comedy Hole, sem var þarna rétt hjá. Þar var aðalnúmerið Sal sjálfur, sem segir sitt. Ef maður er ekki nógu góður til að komast að annars staðar - þá opnar maður bara sinn eigin klúbb! Við fórum líka á hookah-bar sem var beint á móti grínkjallaranum. Þar kom í ljós að ég er léleg vatnspípupía (æðislegt orð), því það kom afar sjaldan reykur þegar ég andaði frá mér. Þrír viðkunnanlegir strákar sem sátu við hliðina á okkur voru mjög pró, spúðu reyk eins og drekar og reyndu að kenna okkur réttu tökin. Hér er Margrét að hlæja að vandræðaganginum í mér. Til að draga athygli lesenda frá undirhöku minni bendi ég á fagurlega skapaða höndina í staðinn.


Á Comedy Cellar var mjög gaman. Þar var allt annar standart en hjá Sal, engir "kærasta mín er svo léleg að totta" brandarar og ekkert barnaníðings-djók. Eins og á flestum öðrum grínklúbbum var sú regla í kjallaranum að maður þurfti að kaupa tvo drykki að minnsta kosti til að mega vera þarna inni. Ég pantaði margarítu en misskildi þjóninn þegar hann spurði hvort ég vildi salt. Ég hélt að hann meinti á glasabarminn en fékk í staðinn rammsaltan grænan drykk. Jú liv, jú lerrn sko.

Ég er ekki viss, en ég held að það var þetta kvöld sem við villtumst í lestarkerfinu á leiðinni heim. Allavega kom það einu sinni fyrir að við stigum upp úr söbbinu og vorum týndari en allt týnt. Stödd á götuhorni í Bronx um hánótt, vitlausu megin við Central Park, og skúmmelt fólk í kring... við enduðum á því að taka leigubíl heim.

Á laugardeginum fórum við aftur á Times Square, ætluðum að freista þess að fá miða á söngleikinn Spamalot og höfðum heyrt að þá þyrfti að bíða í cancellation-line í fimm tíma. Það er víst uppselt marga mánuði fram í tímann á þetta stykki. Fyrst fengum við okkur samt hádegismat á John´s Pizzeria, sjúklega góðar pizzur og ekki síðra umhverfi. Þarna var víst einu sinni kirkja. Samkvæmt innrömmuðu blúprintunum í andyrinu sátum við sátum hægra megin við kórinn.


Með troðfulla maga skipulögðum við biðina eftir miðum. Til allrar hamingju var enginn mættur í röðina svo við Magga tókum okkur stöðu fremst hjá vínrauða flauelsreipinu og strákarnir fóru á flakk. Eftir tveggja mínútna bið ákvað ég að skjótast yfir götuna og kaupa vatn handa okkur og kvaddi Möggu. Þegar ég kom aftur (kortéri síðar, ég tafðist óvart við sjálfsmyndatöku á Times Square!) var engin Margrét fyrir framan leikhúsið. Sjitt. Í ljós kom að stuttu eftir að ég fór hafði leikhússtjórinn sjálfur stungið höfði sínu út og spurt Möggu hvað hún væri að bíða eftir mörgum miðum og hvort hún gæti borgað með reiðufé. Upphófst þá leit Margrétar að okkur hinum, strákarnir komu á harðaspretti en ég var símalaus í vatnsleiðangri. Þetta reddaðist samt og 20 mínútum eftir að við hófum fimm tíma biðina vorum við stoltir eigendur fjögurra fagurra Spamalot miða. In jor feís, lásí fólk sem þarf að bíða í röð!

Sýningin var stórkostleg. Hún er "lovingly ripped off from the motion picture Monty Python and the Holy Grail" sem er einmitt fyrsta kvikmyndin sem ég eignaðist á dvd. Já já jáhh. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af sýningunni fékk ég krampa í kinnarnar af gleði. Þeim tókst mjög vel að gera sýninguna jafn yndislega kjánalega og myndina. Í hléinu keypti ég tvær kókoshnetur, innfluttar af afrískum eða evrópskum svölum. Uppáhalds sálfræðingurinn minn, Dr. Niles Crane, var æðislegur í hlutverki Not-so-brave Sir Robin, dansaði og allt! Salurinn var skotnari í Tim Curry, en hann var frábær líka. Það voru bara allir frábærir sem komu að þessarri sýningu, gleði gleði gleði, hæfileikaríkt fólk. Mæli eindregið með Spamalot fyrir þá sem eiga leið framhjá Broadway.

Hér er ég í hóp franskra riddara fyrir utan leikhúsið. "I don't want to talk to you no more, you empty headed animal food trough wiper. I fart in your general direction. Your mother was a hamster and your father smelt of elderberries." Þessir voru úr pappa þó.


Eftir sýninguna fórum við á fallegan japanskan stað og ég prófaði sushi sem aðalrétt fyrsta sinn. Áður hafði ég bara fengið einn og einn lítinn bita sem smakk eða forrétt og verð að viðurkenna að slíkt hentar mér betur. Ég borðaði samt með prjónum, það er alltaf töff og skemmtó. Þetta kvöld endaði í Duane Reade apóteki í trylltri leit að magalyfi, ekki vegna fisksins samt.


Ég er ofsalega hægvirkur ferðasöguritari greinilega. Haldið ykkur samt jafn fast og fyrr, sunnudagurinn er næstur!

Engin ummæli: