þriðjudagur, janúar 24, 2006

Alnæmisvikan
Þessa vikuna eru hádegisfyrirlestrar í stofu 132, Öskju, á hverjum degi milli 12:20 og 13:00. Í dag var læknaneminn Eyjólfur Þorkelsson með "idiot-proof" fyrirlestur um alnæmi og hvað væri hægt að gera. Á morgun kemur Sigurlaug Hauksdóttir, yfirfélagsráðgjafi sóttvarnarsviðs landlæknisembættisins (segðu þetta hratt tíu sinnum í röð), og heldur fyrirlestur um áhrif alnæmis á samfélagið og hvernig það snertir alla, smitaða sem ósmitaða. Á fimmtudaginn verður Nína Helgadóttir, verkefnisstjóri alnæmisverkefnis Rauða krossins, með fyrirlestur um alnæmi í Afríku. Síðasti fyrirlesturinn er á föstudaginn en þá kemur Ingi Rafn Hauksson, formaður Alnæmissamtakanna, og spjallar um hvernig það er að lifa með HIV. Þetta er sá fyrirlestur sem ég hlakka hvað mest til.

Þessi fyrirlestraröð er hugarfóstur okkar stúlknanna í HIV/AIDS hóp AIESEC, en ætlun okkar er að vekja umræðu um málefnið og vekja athygli á starfaskiptunum sem eru í boði á vegum AIESEC, en mögulegt er fyrir háskólanema að fara erlendis (margir spennandi áfangastaðir í boði) og starfa við alnæmistengd verkefni. AIESEC býður reyndar líka upp á starfaskipti ótengd alnæmisverkefninu og eru þau ekki minna spennandi.

Til að fræðast meira um alnæmisverkefnið má skoða þetta: http://hiv.aiesec.is
Fyrir nánari upplýsingar um AIESEC og starfaskiptin: http://www.aiesec.is eða http://www.aiesec.org

Engin ummæli: