sunnudagur, apríl 23, 2006

Þegar ég var lítil sagði stelpa úr hinum bekknum mér skemmtilega sögu af frænda sínum. Hann átti að hafa arkað upp á skrifstofu Zendium tannkremsfyrirtækisins í Danmörku og sagt að hann væri með hugmynd sem gæti margfaldað sölutölur þeirra. Í staðinn fyrir hugmyndina krafðist hann að fá útborguð forstjóralaun í hverjum mánuði um ókomna tíð, án þess að leggja neitt meira af mörkum en þessa einu hugmynd. "Ef ykkur líst ekkert á hugmyndina hjá mér og ákveðið að nota hana ekki skal ég ganga út og aldrei koma aftur" sagði hann, og stjórnendur fyrirtækisins ákváðu að taka tilboði hans.

Hugmynd frændans var sú að Zendium myndi stækka opið á tannkremstúpunni, flóknari var það ekki. Hann hafði tekið eftir því að fólk lætur yfirleitt línu af tannkremi á burstann sinn, það langa að hún nái yfir öll burstahárin. Ef opið yrði stækkað myndi fólk ómeðvitað láta meira tannkrem á burstann í hvert sinn og þannig klára túpuna fyrr.

Zendium ákvað að hrinda þessu í verk, opið var stækkað og hugmyndinni var gefinn þriggja mánaða reynslutími. Í ljós kom að frændinn hafði haft rétt fyrir sér. Sölutölurnar jukust grimmilega og allir voru glaðir, sérstaklega frændinn.

Engin ummæli: