mánudagur, apríl 03, 2006

Það er oft gaman þegar hlutirnir fara á annan veg en maður býst við. Síðasta föstudagskvöld var planið að fara á Kofann og hlusta á skemmtilega hallærisleg lög í boði Mokka töff, en í staðinn endaði ég á Þingvöllum í niðamyrkri ásamt góðu fólki og dýrum græjum.

Kvöldið hófst á því að ég fór í vísindaferð og á kóræfingu (já, í þessarri röð - mæli eindregið með því). Eftir æfinguna sátum við Magga Rún, Davíð og Ómar heima hjá mér, borðuðum gómsæta pizzu (pepp svepp & rjómaostur, delissjöss Pizza King) og horfðum á væmnu Disney myndina á RÚV í gúddí fíling. Um hálf-tíu leytið sýndi Ómar óhemju mikinn viljastyrk og fór heim til að læra undir próf en við hin áttuðum okkur á því að krúttlegir krakkar á flugmóðurskipi eru ekki skemmtilegir til lengdar. Þá stakk Davíð upp á því að við myndum skunda á Þingvöll því þar væru félagar í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness með græjurnar sínar. Hugmyndin var slegin og seld og við brunuðum austur.

Á Þingvöllum var mjög gaman. Við mættum þangað um hálf tólf og var þá verið að stilla og fíntjúna sjónaukamonsterin. Eins og stjörnuskoðunarlög gera ráð fyrir voru engin ljós á staðnum fyrir utan nokkur dauf rauð vasaljós til að stillingarmennirnir sæju handa sinna skil. Mér fannst ansi spes að mæta á svæðið, þekkja engan og sjá ekki neitt. Enda kom í ljós að ég þekkti fleiri þarna en ég hélt. Við vorum að small talka við einhvern strák án þess að neinn var búinn að kynna sig. Þegar ég síðan kynnti mig sem Ásdísi spurði hann á móti hvort ég væri Eir. Þetta var þá Kári "LePre" úr MR, kærasti Þórhildar. Frekar spes að tala við einhvern sem maður sér ekki, halda að þetta sé einhver ókunnugur en komast svo í raun um hið gagnstæða.

Sjónaukarnir sem voru þarna eru engin smásmíði. Mér fannst þetta allt ferlega töff en reyndi að hemja mig til að sýnast ekki of viðvaningsleg. Grétar, sá sem átti stærsta sjónaukann, benti okkur á helstu stjörnumerkin með langdrægum laser (leíser/leysi?) svo nú get ég loksins ídentífíkerað fleiri hluti á stjörnuhimninum en Karlsvagninn og Stórabjörn. Svo sýndi hann okkur ýmsar stjörnuþyrpingar og reikistjörnur. Mér fannst mest til koma að sjá Satúrnus því hringir hans sáust og allt. Svo sýndi Sævar, einn af stjornuskodun.is-strákunum, okkur meðal annars kúluþyrpinguna M51 (ótrúlega flott), Júpíter og Tvíklasann. Gaman gaman gaman.

Þó svo að ég var ótrúlega vel klædd (var í föðurlandi og alles) varð mér samt frekar kalt undir lokin. Sævar sannfærði okkur samt aftur og aftur um að við gætum ekki farið fyrr en við værum búin að skoða hitt og þetta, svo undir lokin var ég farin að hoppa og skoppa til að halda á mér hita. Næst þegar ég fer í stjörnuskoðun ætla ég að (a) vera betur klædd, (b) mæta með kakó á hitabrúsa, (c) vera búin að grandskoða Stjörnufræðivefinn svo ég geti heillað alla með gáfum mínum og vitnað í Carl Sagan hægri og vinstri. Jess!

Engin ummæli: