laugardagur, maí 06, 2006

Frá því í desember á síðasta ári hefur hangið jólakrans í stofuglugganum hjá mér. Þetta er einn af þessum fjöldaframleiddu Ikea krönsum sem annað hvert heimili á Íslandi fjárfesti í um jólin, hjartalaga og fallegur. Ástæðan fyrir því að ég er ekki enn búin að taka hann niður, þó svo að sumarið sé á næsta leiti, er þrískipt: (i) kransinn er fallegur og lýsti upp skammdegið, (ii) ég nenni ekki að færa rúmið mitt svo hægt sé að komast inn í geymsluna og (iii) ég er í laumukeppni við fólkið sem á heima ská á móti mér garðmegin. Sú fjölskylda (eða par eða einbúi, hvað veit ég?) er nefnilega ennþá með aðventuljós í glugganum sínum.

Meðan lýsandi Ikea hjartað mitt kemst upp með það að þykjast vera nýárshjarta og síðan skammdegis-, páska- og vorhjarta, þá er aðventuljós í glugga orðið frekar út úr kú strax í febrúar... svo ég tali nú ekki um í maí! Ég var búin að ákveða með sjálfri mér (um miðjan febrúarmánuð nota bene) að þegar aðventuljósið hyrfi hjá nágrannanum þá myndi ég hunskast til að taka hjartað mitt úr glugganum. Enn hefur ekkert gerst og ég er farin að halda að þessi keppni okkar eigi eftir að dragast fram á næsta ár.

Áðan var mér þó refsað fyrir letina. Ég hafði opnað gluggann fyrr um daginn til að leyfa hlýju "það-er-næstum-því-sumar" golunni að leika um íbúðina og var að fara að loka honum aftur. Það þarf að beita allsérstakri tækni til að loka gluggunum hérna, tækni og handafli, svo þegar ég kippti glugganum að mér (ætti eiginlega að láta skýringarmynd fylgja) gerði ég það af nokkru afli. Því miður lenti einn af ljósöngum Ikea-hjartans á milli ??? (mér dettur ekkert annað í hug en að skrifa "stafs og hurðar" en það getur varla verið rétt. Hvað segir maður þegar átt er við glugga?)

Allavega... einn ljósanginn lenti sumsé á milli og mölbrotnaði. Brotnaði í spað og þúsund mola, og ég gat ekkert gert til að bjarga lífi hans. 39 vinir hans ákváðu að fremja sjálfsmorð honum til samlætis, svo núna er ég með rúmlega hálft glóandi vorhjarta í stofuglugganum mínum. Bömmer. Staða mín í laumukeppninni hefur veikst til muna. Ég meika ekki að hafa svona fatlafól hangandi mikið lengur. Hálft hjarta er ýkt leímó.

Engin ummæli: