föstudagur, október 26, 2007

Furðulegt háttalag kvenna í hádeginu

Í hádeginu smeygði ég mér framhjá vinnuvélar og drullupolla og fór í Íþróttahúsið. Þegar í klefann var komið setti ég töskur, skó og úlpu inn í skáp 23 (því það er mikilvægt að velja sér skáp í samræmi við aldur) og brá mér á klóið. Þegar ég kom aftur stóð eldri kona fyrir framan skápinn minn og reigði sig og beygði. Hún hafði komið inn í klefann rétt á eftir mér og valið sér skáp númer 22. Það var engin önnur kona í klefanum og aðeins tveir eða þrír skápar voru læstir. "Furðulegt að velja akkúrat þennan skáp" hugsaði ég, því skápurinn minn stóð opinn og það var nokkuð augljóst að hann var í notkun. Annað sem gerði val hennar undarlegt var að númer 22 er á enda skáparaðarinnar og því bekkjapláss af skornum skammti. Konan geymdi þess vegna veskið sitt og íþróttatösku á gólfinu meðan hún klæddi sig úr og í. Svo lítið pláss hafði hún skammtað sér að ekki gat hún sest. Fór hún því að veggnum og hallaði sér að honum meðan hún reimaði á sig skóna.

Ég náði þessu ekki.

Áður en hún fór lokaði hún skápnum en var ekki með hengilás og gat því ekki læst. Skömmu síðar gekk önnur eldri kona rösklega inn í klefann, en staðnæmdist í hálfa sekúndu meðan hún skimaði yfir svæðið. Svo gekk hún rakleitt yfir til mín og opnaði skáp 22. Þegar hún sá að hann var í notkun andvarpaði hún lágt og lokaði honum aftur. Svo gekk hún hálfhring í kringum mig, að skáp númer 24 og opnaði hann án þess að hika.

Hví?

Engin ummæli: