Ég á mjög erfitt með að vakna á morgnana. Svo erfiðlega gengur það að ég neyddist til að hanna þríþætt vakningarkerfi til að geta drullast frammúr. Klukkan sjö byrjar síminn minn að spila (hræðilega) útgáfu af laginu Hey Ya! með Outkast. Ég rumska, fálma eftir honum, ýti á snooze og steinsofna aftur. Klukkan 7:05 hringir háværa vekjaraklukkan mín. Það eru svo mikil læti í henni að hún færist smá úr stað þegar mest gengur á. Til að hámarka nýtinguna er klukkan staðsett á hillunni við fótenda rúmsins og þarf ég því að reisa mig við til að slökkva á henni. Venjulega vakna ég samt ekki við þetta, heldur pompa mér aftur á koddann og held áfram að lúra. Klukkan tíu mínútur yfir sjö byrjar Hey Ya! aftur og ég flýti mér að snúsa í annað sinn. Ennþá sofandi. Þá kemur þriðji og áhrifamesti þáttur þríþætta vakningarkerfisins við sögu - iPoddinn inni í stofu. Klukkan 7:12 byrjar hann að spila háværa (!!) tónlist og ég neyðist til að drífa mig frammúr svo ég geti slökkt áður en nágrannarnir hringja á lögguna. Þetta svínvirkar! Ég hef prófað að hafa tónlistina miðlungs-hátt stillta, en þá er ég gjörn á að liggja bara undir sænginni og njóta hennar þar til ég sofna aftur. Therefore, loud it is.
Í nótt gisti ég ekki á Hagamelnum, svo mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég sá sms-skilaboð frá nágrannakonu minni, sent klukkan 7:23 í morgun.
Er þessi tónlist uppi hjá þér? Vinsamlega LÆKKA takk.
Þetta sá ég ekki fyrr en klukkan hálf tíu þegar ég vaknaði, og þá höfðu krakkarnir í Arcade Fire hafið raust sína klukkan 7:12 og spilað í einn og hálfan tíma á hæsta styrk, íbúum Hagamels til ómældrar ánægju.
S-a-m-v-i-s-k-u-b-i-t
Engin ummæli:
Skrifa ummæli