þriðjudagur, júní 22, 2004

Þannig fór um sjóferð þá...
Föstudaginn síðasta röltu fjórir Londonbúar niður á Ægisgarð Reykjavíkurhafnar. Leið þeirra lá að miðasöluskúr einum, þar sem þau ætluðu að forvitnast um fyrirkomulag og verð á hvalaskoðunarferð. Fyrir hittu þau stúlku með gleraugu og í röndóttri peysu. Tal þeirra snerist í fyrstu um hvali, en leiddist fljótt út í langt spjall um almenn mál eins og hátt áfengisverð á Íslandi og framtíðarplön stúlkunnar. Eftir rabbið tóku fjórmenningarnir þá ákvörðun að fara í hvalaskoðun þremur tímum seinna og tók stúlkan vel í það.
Tæpum þremur tímum síðar hittust þau aftur, fjórmenningarnir og stúlkan. Í þetta skiptið voru Londonbúarnir klæddir hlýrri fötum og búnir að innbyrða eina eða tvær margarítur á mann. Þegar þau ráku augun í stúlkuna upphófust miklir fagnaðarfundir, peningaseðlar skiptu um eigendur og miðar voru afhentir. Eftir þessi viðskipti sögðu þau stúlkunni að fjórðungur teymisins væri að fara að spila á NASA næsta kvöld. Gáfu henni glöð í bragði geisladisk og bentu á nafn hans. Í ljós kom að þau voru öll á vegum EmmTéVaff sjónvarpsstöðvarinnar, í stuttu stoppi á Íslandi vegna heimildarþáttargerðar. "Hey, would you like us to put you on the guestlist for tonight?" Já takk, sagði stúlkan brosandi.. en skemmtilegt! "And then I´ll buy you an expensive drink" sagði sætasti strákurinn svo, og vísaði þannig skemmtilega í fyrri samræður.
Næsta kvöld fór stúlkan í afmæli til vinkonu sinnar í Mosfellsbæ. Reyndi af veikum mætti að hljóma ekki of spennt þegar hún sagði fólki frá plönum sínum. Laust eftir miðnætti lagði stúlkan af stað í bæinn, stoppaði í Breiðholtinu til að ná í buisness-kort, sem kvenkynsfjórðungur gengisins hafði rétt henni daginn áður með þeim tilmælum að hafa það meðferðis ef upp kæmi vandamál. Stúlkan hringdi í djammfélaga sinn og mæltu þær sér mót fyrir utan gamla skólann sinn. Þegar þangað var komið var stúlkan komin í dansidansigírinn, búin að hlusta á geisladiskinn margoft og farin að kunna textann við sum lögin. Þær röltu að NASA, og veröld stúlkunnar hrundi.
Í stað þess að sjá langa, troðna röð, rauðan dregil og dyraverði í tugatali sáu þær einmana dyravörð fyrir utan staðinn, kinkandi höfuðið til marks um að þær gætu gengið inn. "Vottþefökk!?" hugsaði stúlkan. Hún hafði verið búin að skipuleggja í huganum hvernig hún ætlaði að arka fram fyrir röðina, horfa í augu dyravarðanna og spyrja hvort hún væri ekki á listanum? Skynja síðan viðurkenningaraugngotur múgsins meðan hún gengi inn á staðinn án þess að borga. Ó, hið ljúfa VIP líf sem aldrei varð! Þegar stúlkurnar tvær komu inn í andyrið hittu þær á miðasölustúlku og annan dyravörð. Hér átti greinilega að borga inngöngugjaldið. Jæja, hnussaði stúlkan, ég fer þá bara með VIP línuna mína hér. Þá hnippti vinkona hennar í hana, "Sjitt! Líttu inn!" - á dansgólfinu voru tæplega tíu hræður að dansa við taktfastan Ibiza takt. "Heyrðu, hvenær er þetta eiginlega búið?" spurðu þær dyravörðinn. "Um fimm" var svarað. "Gott gott, heyrðu, við komum aftur seinna bara.. þegar það eru fleiri mættir!" Og út hlupu stúlkurnar tvær.
Eftir göngutúr upp Laugaveginn, kók og prins + spjall niðrá hafnarbakka og enn meiri Laugavegsrölt var afráðið að sleppa því að gera aðra atlögu að NASA.
Óþarfi að láta raunveruleikann eyðileggja hinn fullkomna VIP draum.

Engin ummæli: