fimmtudagur, maí 25, 2006

Mér var aldeilis hent út í djúpu laugina í hádeginu. Tuttugu mínútum fyrir brottför fékk ég að vita að ég átti að vera leiðsögumaður fyrir hóp hvalaþyrstra Þjóðverja sem voru að koma í sérferð. Ég hef aldrei gædað (guide-að?) áður, en það gekk samt alveg hreint ágætlega. Hélt mig þó að mestu við enskuna, þó svo að ég hafi lært þýsku í fjögur ár. Það er alveg merkilegt hvað tungumál eru fljót að gleymast þegar maður æfir sig ekki í þeim. Vissi þó að hrefnan heitir Zwergwal á þýsku og að lundar kallast Papageientaucher, svo þetta reddaðist allt.

Þegar við (ég og kapteinn Siggi sæti) vorum á leið í land vorum við beðin um að fara í aðra ferð, nú ásamt fimm Finnum. Þau urðu geðveikt glöð þegar ég óskaði þeim til hamingju með Eurovision. Mér fannst sú ferð skemmtilegri, þrátt fyrir að hrefnurnar reyndust ekki vera jafn fjörugar og í fyrri ferðinni, vegna þess að ég gat haldið mig við eitt tungumál (onei, ekki var það finnskan). Á leiðinni í land komu síðan nokkrir höfrungar og léku sér fyrir framan stefnið. "Oooh!!! Excellent!" hrópaði ég þá, geðveikt æst. Töff punktur yfir i-ið, ekki spurning!

Það er ekki enn komið hljóðkerfi í litlu (báðar ferðirnar mínar í dag voru sumsé á Eldingu II, ekki stóru Eldingunni) svo ég gat ekki verið svala MC Guide týpan með hljóðnema og attitjúd. Í staðinn talaði ég bara hátt og brosti breitt. Nú þarf ég bara að leggjast yfir líffræðibækur og hlusta á gullkornin sem drjúpa af vörum ofurgædanna, Eddu og Angelu. Mér verður nefnilega hleypt í hljóðnemann á stóru þegar Angela fer í frí. Gaman gaman.

Engin ummæli: