laugardagur, apríl 03, 2004

Nautn í hávegum...
Síðustu jól fékk mamma mín gjafakort í Nordica Spa, og í dag var mér boðið í nudd.
Þegar við mættum fengum við handklæði og sloppa og var okkur boðið að fara fyrst í gufu og pottana. Eftir fataskipti og sturtu lá leiðin að hinu kertalýstu Spa-svæði. Fyrst var farið í eucalyptus-gufuna og svo í piparmyntu-gufuna þar sem önduð var að sér arómagufa sem hreinsaði bæði huga og nefhol. Síðan lá leiðin í pottinn þar sem hitastig vatnsins var fullkomið - heitt, en ekki of heitt. Þar sem við sátum í mestu makindum komu tvær konur aðvífandi og nudduðu háls, herðar og höfuðleður. Ég fékk gæsahúð og þurfti að passa mig að stynja ekki af vellíðan. Eftir gufuna og pottinn var kominn tími á smá kælingu svo setlaugin var heimsótt. Þar var hægt að fá sér svona bláa skúmgúmmílengju sem, ef réttilega beitt, hélt efri hluta líkamans á floti. Það hljóta að vera skúmgúmmílengjur og setlaugar í himnaríki?!
Loks var komið að hápunktinum. Eftir snögga sturtu og sloppaíklæðningu var okkur vísað inn í sitthvort herbergið. Þar tók við dempuð lýsing og kertaljós ásamt rólegri, lágstilltri tónlist. Meðan nuddarinn náði í olíur lagðist maður á upphitaðann nuddbekkinn, breiddi yfir sig dúnmjúka ábreiðu og gladdist yfir því að bekkurinn var sérstaklega hannaður þannig að þægilegt væri að liggja á maganum. Nuddið tók 40 mín. og ég held að ég geti fullyrt að mér hafi aldrei, ALDREI, liðið svona vel!
Aaah...

Engin ummæli: