mánudagur, maí 31, 2004

Fyrsti vinnudagur sumarsins var í dag.
Ég mætti galvösk niður á hafnarbakka, tilbúin í slaginn. Seldi túristum miða og talaði um hvali. Átti að fá að fara í ferð, en þar sem að vindurinn var frekar öflugur var ákveðið að hlífa mér við sjóveikinni svona til að byrja með. Veit nú ekki hvaða aumingi þau halda að ég sé.. hef bara þrisvar orðið sjóveik á ævinni.
Ég er sumsé að vinna hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu í sumar (jú jú, gamli klíkuskapurinn). Mun vera í miðasölunni niðrá hafnarbakka, dreifa bæklingum á hótel og gistiheimili bæjarins, og fara í stöku ferð út á sjó að sýna hvali.
Svo fer að styttast í flutning. Er farin að dreyma dagdrauma um komandi mánuði. Í draumunum er ég fyrirmyndar gestgjafi í fyrirmyndar húsakynnum. Tilbúin með hvítvín í kælingu, humar á grillinu og fallega dekkað borð. Svo er stofan hlýleg og full af skemmtilegum gestum. Fallegar myndir á hanga á veggjunum og einhver er búinn að kveikja á kertum. Bókahillurnar eru troðnar af áhugaverðum bókum og einstaka munum sem segja sögu af skemmtilegu lífshlaupi.
Í draumunum er tiltektin ekkert mál. Auðvelt er að þvo þvottinn og ryk fyrirfinnst ekki.
Þetta verður frábært sumar!

Engin ummæli: