sunnudagur, september 19, 2004

Við Þórunn fórum í Hagkaup í gær svo ég gæti keypt í matinn (mæli með því að eiga a.m.k. einn bílaeiganda að vin). Þessa dagana eru Amerískir dagar í Hagkaupum og var því ekki þverfótað fyrir hnetusmjöri, sykurpúðum og rifjasteikum. Á rölti okkar milli hillna rákumst við á myndarlegan dósastafla.. ný gerð af kóki og tvær mismunandi tegundir af rótarbjór. Þórunn, hinn reyndi Ameríkufari, horfði skælbrosandi á mig: Ásdís, hefur þú smakkað rótarbjór? Þú verður! ..og þar sem mér hefur alltaf þótt rótarbjór vera nokkuð spennandi drykkur, (áhrif hollywood mynda - vafalaust!) þá var rótarbjórnum komið haganlega fyrir í körfunni milli mjólkurfernu og túnfiskdósar.
Ekki veit ég afhverju, en í huga mér hefur rótarbjór verið svipaður drykkur og íslenska maltið. Kannski er það orðið sjálft sem hefur komið þeirri tengingu í huga mér.. Root Beer - einhver hlýr "jarðarfílingur" svífandi yfir vötnum? Ó nei, annað kom í ljós. Rótarbjórinn reyndist vera munn þynnri vökvi en ég hafði gert ráð fyrir, og það sem meira er, hann bragðaðist eins og kolsýrt munnskol!? Kolsýrt munnskol!! Þórunni var skemmt. Ég var skemmd.
Afhverju er þessi drykkur svona vinsæll í Bandaríkjunum?

Engin ummæli: