sunnudagur, janúar 23, 2005

Um daginn rölti ég í rólegheitunum út í apótek til að kaupa mér naglaskæri (fyrsta skref í átt að fallegum nöglum). Þegar ég var að borga horfði lyfjafræðingurinn, glaðlynd kona á fimmtugsaldri, á mig brosandi augum. "Jæja vinan, áttu ekki kærasta eða mann?" og rétti mér tvær kremprufur úr karlalínu Lancome. "Áttu ekki kærasta eða mann?" Ég svaraði að vörmu spori með lyginni "Jújú, eitthvað svoleiðis!"
Afhverju ég fann þá þörf að segjast eiga "eitthvað svoleiðis" við apótekarann sem var að ota að mér karlmannskremi hef ég ekki græna glóru. Hitt veit ég að þegar hún fór að minnast á að bóndadagurinn væri væntanlegur kom ég alveg af fjöllum. "Hvenær er hann aftur?" "Á morgun!" svaraði hún skælbrosandi, hissa á því að ég hefði ekki svona hluti á hreinu. "Nú já.. haha.. jæja, fyrst svo er þá get ég gefið honum kremprufurnar á morgun." sagði ég brosandi, kvaddi og fór. Kremprufur í bóndadagsgjöf?!
Svo.. Ekki nóg með að ég hafi búið mér til kærasta og ástarsamband fyrir lyfjafræðing í apótekinu, heldur hef ég afrekað það að vera lélegasta kærasta í heimi án þess að vera í sambandi. Geri aðrir betur.

Engin ummæli: