þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Maður á aldrei að gefast upp.
Laugardaginn síðasta var ég að undirbúa matarboð. Ég bakaði brauð, galdraði fram súpu og fann þvílíkt djúsí uppskrift að Súkkulaði Tart. Mikið ætlaði ég að gera vel við mig og mína.
Uppskriftinni var fylgt nákvæmlega eftir, ég setti meira að segja farg ofan á Sable botninn (hvað er með þessi nöfn?) til að deigið myndi ekki blásast upp. Svo saxaði ég og bræddi þrjár mismunandi tegundir af súkkulaði og hef sjaldan skemmt mér betur.
Rétt áður en gestirnir komu gerði ég mig síðan líklega til að taka kökurnar (þær urðu tvær, formin voru svo lítil) út úr ofninum, en obbosí - öðru vísi mér áður brá! Kökurnar voru eins og súkkulaðisúpur! Ég ákvað samt að halda áfram að fylgja uppskriftinni og lét formin standa í 40 mínútur, setti þau síðan inn í ísskáp og vonaði hið besta.
Eftir matinn, þegar ísskápurinn var opnaður á ný, hafði umbreytingin mikla þó enn ekki átt sér stað. Því var ein kakan látin vera ídýfa fyrir jarðarber.. kombínasjón sem svínvirkaði!
Í gærkvöldi ákvað ég þó að gera lokatilraun til að breyta "kökunni" sem var eftir í þá himnesku súkkulaðitartssæluorgíu sem uppskriftin var búin að lofa mér. Því kýldi ég hana inn í funheitan ofn og settist niður og horfði á CSI. Þegar þátturinn var búinn var lyktin orðin ómótstæðileg - kakan bakaðist fökkin fullkomlega! Jahérnahér, hvar eru gestir manns þegar maður þarfnast þeirra? Þrátt fyrir góðan vilja á ég aldrei eftir að klára þetta ein. Enn er 3/4 kökunnar eftir, svo ef þér langar í brot af himnaríki skaltu ekki hika við að koma í heimsókn.

Á - Álfabikarinn hefur verið vinur minn í tæp þrjú ár. Lagaður eins og fingurbjörg stendur hann sína plikt í hvert sinn sem ég er á túr, þægilegur og umhverfisvænn. Álfabikarinn var fundinn upp af nokkrum bandarískum konum sem voru að plana Norðurpólsför en voru farnar að sjá fram á mikið dömubinda- og túrtappavesen.

Engin ummæli: