fimmtudagur, mars 10, 2005

Ég hlakka til að sjá kvikmyndina The Life Aquatic with Steve Zissou. Mér skilst að einn áhafnarmeðlimurinn geri næstum ekkert í myndinni nema að syngja Bowie lög og glamra á gítarinn sinn. Áhafnarmeðlimur þessi heitir Seu Jorge og er brasilískur, svo öll lögin hafa verið snöruð á portúgölsku. Það getur ekki verið slæmt.

Að öðru. Farsíminn minn er svo skrýtinn. Hann er tiltölulega nýr, en hefur tekið upp á þeim ósið að neita að sýna mér nafnið á þeim sem senda mér sms. Þegar ég fæ sms sé ég því einungis úr hvaða númeri það kemur, ekki nafn sendandans, svo ég þarf annaðhvort að giska eða hringja í númerið og skella svo strax á. Glatað fyrirkomulag.

F - Fanny. Ég var í æfingaferðalagi á Portúgal með sundliði Ármanns fyrir allmörgum árum. Við vorum nokkrar stelpur sem fórum næstum öll kvöld á sama karókí-barinn og dönsuðum og sungum. Við máttum vera til hálf tólf eða tólf minnir mig, og þótti mér það mikið gaman. Eitt kvöldið vatt sér að mér fullur Breti og frussaði í eyrað á mér "I really, really like your fanny." Ég þurfti að spyrja hann tvisvar áður en ég fattaði hvað hann væri að segja. "Oh, sorry man. I have no friend named Fanney." Ég hélt að maðurinn myndi deyja úr hlátri.

Engin ummæli: