þriðjudagur, mars 08, 2005

Um hádegisbil laugardagsins síðasta var ég á leið minni heim eftir stórkostlegt föstudagshúll. Sólin skein og fuglarnir hefðu sungið ef einhverjir hefðu verið. Glöð í bragði rölti ég eftir göngustíg einum, framhjá hópi þriggja ungra mæðra og barna þeirra. Um leið og þær komu auga á mig fóru þær að pískrast á. Ég var klædd svartri peysu, stuttu pilsi og jakka, í þykkum, svörtum sokkabuxum og í stígvélum. Djammklædd með úfið hár. Augngoturnar urðu óþægilega áberandi og mæðurnar ungu reyndu ekki að fela hversu hneykslaðar þær voru á útganginum á mér. Ein hallaði sér að hinum og hvíslaði eitthvað, nikkaði og flissaði. Miðaldra hjón í heilsubótargöngu nálguðust óðfluga. Konan horfði á pilsið mitt með vanþóknun í augunum. Karlinn var eitthvað hressari, en ekki mjög. Að hugsa sér. Klukkan að ganga eitt og þessi illa klædda stúlka fyrst að skríða heim úr bænum núna!
Raunin var samt sú að Magga umhyggjusama hafði meinað mér að labba einni heim um nóttina og lánað mér náttföt, sæng og hálft rúm. Hefði ég verið að koma úr einhverju öðru bóli hefði þessi óvænta athygli líklega fengið mjög á mig.

É - É, je eða yeah! Þetta litla orð á óskaplega vel við í furðumörgum aðstæðum. Um helgina fékk ég að vita að ég væri mikil É-týpa. Ég kýs að taka því sem hrósi.

Engin ummæli: