þriðjudagur, maí 03, 2005

Ég fékk jeppann hans pabba lánaðan í gær með því skilyrði að ég færi í Sorpu með allt ruslið sem í honum var. Leið mín lá því niður að Ánanaustum, þar sem ég henti hundraðþúsund dagblöðum í bláan gám áður en ég ók upp á pallinn milli stóru gámanna. Glerkrukkur, timburafgangar, málmrusl, götótt plastábreiða og ónýtir sólstólar fengu að fjúka ofan í viðeigandi gáma. Að lokum var ekkert eftir nema tylft pappakassa, stórra og smáa. Ég tók nokkra undir handleggin og tiplaði yfir brúnna sem tengir pallana saman. Hinumegin var pappakvörnin í full swing, svo ég leifði mér þann munað að horfa á pappakassana mína kremjast áður en ég fór aftur að bílnum að ná í næsta skammt. Þegar ég kom aftur að jeppanum brá mér heldur í brún. Aftarlega í skottinu sá ég glitta í ljósbrúnan kassa merktum Saab. Ég var nýbúin að horfa á tvíburabróðir hans kremjast til dauða í pappapressunni, og þegar ég sá eins kassa rifjaðist upp fyrir mér að hinn Saab kassinn hefði verið aðeins þyngri en við mátti búast. Ég teygði mig í eftirlifandi eintakið og vó það í hendi mér – kassinn var ekki tómur! Ég opnaði kassann og við mér blasti glansandi afturljós fyrir Saab 900, árgerð 1997. Ég hljóp að pappapressunni og bað manninn sem henni stjórnaði að slökkva á tryllitækinu, ég væri nefnilega búin að henda svolitlu sem ég hefði ekki átt að henda. Hann hló bara og sagði að það þýddi ekkert að slökkva. "Allt sem í gegnum kvörnina fer, á þaðan ekki afturkvæmt!" (Alveg rólegur á dramatíkinni félagi, ég hef enga þörf fyrir svona.) Svo ég kláraði að henda restina af kössunum, fyrir utan Saab kassann heppna, og ók af stað með hnút í maganum.

"Hæ pabbi? Ásdís hérna... heyrðu... ég gerði pínu mistök!"
"Sæl. Nú?"
"Jáhh, ég hérna... lét óvart eitt af nýju Saab afturljósunum í pappakvörn."
"... ... ..."
"Ég reyndi samt að ná því aftur!"
"Ásdís, veistu hvað svona afturljós kostar?"
"Neeeeih?"
"Rúmar sextánþúsund krónur!"
"Uuuuu..."
"Ég er bara að grínast, þú áttir sko að henda þeim. Ég setti ónýtu ljósin í kassana utan af þeim nýju! Hahahahahaha!"

Engin ummæli: