þriðjudagur, maí 31, 2005

Í nýjustu viðbót íslenska blaðamarkaðarins, Hér & nú, má finna margt óspennandi og ónauðsynlegt. Sumar síður blaðsins gætu hæglega átt heima í Séð & Heyrt, eins og umfjöllunin um fertugsafmælisveislu og gesti hennar eða greinin um blöðruhálskirtilsvanda fjölmiðlamanns, en aðrar greinar eru innihaldsrýrari (þótt ótrúlegt megi virðast) og minna um of á breskan slúðursora.
Greinin Breki fer í sund finnst mér einna verst. Breki Logason fer í Laugardalslaugina og tekur myndir af grunlausu fólki í baðfötum (10 stelpum og þremur strákum) og skrifar stutta lýsingu við hverja mynd.

Ljósblátt bikiníið tók sig vel út enda eyrnalokkar í stíl. Henni þótti ekki
leiðinlegt að láta horfa á sig og var mjög meðvituð um alla í kringum sig.
Fingurnir fengu að leika um rennblautt hárið þegar hún gekk ákveðin í átt að
sólbekkunum.

Upp úr lauginni kom hún og gæti slegið hverju nærfatamódelinu sem er ref
fyrir rass. Sundfötin glæsileg og flott að vera með svona hvítt belti. Henni
leiddist ekki athyglin sem hún fékk frá strákunum í pottinum enda roðnuðu þeir
allir þegar hún settist við hlið þeirra.

Með lykil á brjóstinu. Þessi myndarlega stúlka steig upp úr sundlauginni og
bar sig nokkuð vel. Veðrið lék við hana og fljótlega lá hún í makindum sínum í
pottinum.
Er pilturinn ekki að grínast?! Hvað varð um rétt manna til einkalífs? Strákarnir þrír eru allir nefndir á nafn, enda mini-celebs þar á ferð, Sammi í Jagúar, Jón Arnór Stefánsson og Helgi Magnússon körfuboltagaurar, en stelpurnar eru allar gjörsamlega óþekktar, venjulegar stelpur og eru ekki nafngreindar (nema Kristín Bergsdóttir, kærasta Samma). Þetta bendir til að Breki hafi ekki beðið um leyfi til að taka af þeim myndir, hvað þá til að birta þær á prenti, enda hefði hann þá vafalaust beðið um fullt nafn og látið það fylgja.

Það er eitt að birta myndir af frægu og semi-frægu fólki, enda hefur slíkt hingað til verið gert með vitund og (oftast) samþykki viðkomandi hér á landi, en að birta myndir af algerlega óþekktu og grunlausu fólki finnst mér út í hött! Hvað þá þegar þetta sama grunlausa, óþekkta fólk er íklætt engu nema efnisrýrum sundfötum.
Ég vona innilega að svona myndbirtingar séu ekki framtíð íslenskrar slúðurblaðamennsku.

Engin ummæli: