mánudagur, ágúst 01, 2005

Um fjögurleytið í gær segir Rannveig mér að þau Vignir séu að íhuga að fara til Eyja um kvöldið og "taka þátt í Brekkusöngnum og svona...". Þá hafði sú hugmynd komið upp að leigja 9 sæta flugvél, fljúga til Vestmannaeyja um leið og síðasta hvalaskoðunarferðin klárast, taka lagið með Árna og fljúga aftur heim. "Kemurðu ekki með?!"
Klukkan fjögur lögðum við Einar kafteinn svo af stað í sjóstöng með 17 manna hóp og komum ekki í land fyrr en rúmlega átta. Þá fæ ég að vita að við þurfum að vera mætt upp á flugvöll eftir tuttugu mínútur og að ég verði að hafa hraðann á ætli ég mér að sækja stígvél. Ég hendist heim í hláturskasti, tautandi eitthvað um hversu súrt þetta sé. Finn hvorki stígvélin mín né gönguskóna en man þá að allur hlífðarfatnaðurinn minn er í öruggri vörslu hjá mömmu og pabba. Í sama hláturs- og stresskastinu hringi ég í Dabba frábæra sem undrandi staðfestir að hann eigi bæði stígvél og pollabuxur. Vel útbúin mæti ég síðan (enn í hláturskasti) niður í bát þar sem ég fæ kippu af bjór, eitthvað vodkasull, gulan regnjakka og pizzusneiðar þrjár - reddí tú gó!
Á flugvellinum beið okkar rennileg vél, ásamt tveimur myndarlegum flugmönnum með gullrendur á öxlunum, og eftir að við höfðum párað nöfn og kennitölur á blað var tekið á loft.
Við vorum níu manns; Rannveig og Vignir, eigendur fyrirtækisins, Einar kafteinn + guide, Jón Eðvald pabbastrákur, Edda guide, Andri vélstjóri, Elva Sara og Sara miðasölupæjur og ég. Þegar við lentum í Eyjum, hálftíma síðar, tóku tveir leigubílar á móti okkur (bílstjórinn "minn" var með Árna Johnsen sprellikarl hangandi í baksýnisspeglinum) og skutluðu okkur í Herjólfsdalinn þar sem rödd Jónsa bergmálaði um allt.
Þetta var í fyrsta sinn sem ég kem á Þjóðhátíð og stemningin kom mér skemmtilega á óvart - þegar maður lítur upp í brekku á allt fólkið líður manni svolítið eins og maður sé staddur í fornu hringleikahúsi. Grænu hringleikahúsi með kindum. Mér fannst fáir ofurölvi, miklu færri en ég bjóst við, en það var kannski af því að ég var snemma á ferð?
Eftir að hafa sungið lögin hans Bubba fyrir hann horfði ég á litla kalla í endurskinsvestum stafla spýtnabraki fyrir framan sviðið. Meðan á því stóð rann langur eðalvagn löturhægt í hlað, Árni "a guitar-playing ex-þingmaður who stole some bricks and a carpet" Johnson var mættur til starfa. Brekkusöngurinn var vægast sagt brilljant. Ég söng hástöfum allan tíman, skælbrosandi og mjög meðvituð um hvað það væri fáránlegt að ég væri stödd í Vestmannaeyjum. Eftir þjóðsönginn og flugeldasýninguna var okkur ekið upp á flugvöll á ný og leið mér mjög rokkstjörnulega. Áður en við stigum um borð í vélina pissuðum við Elva og Edda bak við hól og ég tók fjögur handahlaup á flugbrautinni. Hálftíma síðar vorum við lent í Reykjavík, reiðubúin að taka miðbæinn með trompi í gúmmístígvélum með eiturgrænt Þjóðhátíðararmband.

Engin ummæli: