fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Árið 1961 gerði Stanley Milgram mjög fræga tilraun þar sem hann rannsakaði hversu gjarnt fólk er að hlýða yfirvaldi (eða authority figure) sem gefur fyrirmæli um að gera eitthvað sem stríðir gegn sannfæringu flestra. Flestir kannast líklega við þessa tilraun: Rannsakandinn lét þátttakanda gefa öðrum manni (leikara og vitorðsmanni) raflost, og sagði honum að halda áfram þó svo að leikarinn var farinn að æmta og skræmta af sársauka (hann fékk auðvitað ekki raflost í alvörunni). Í ljós koma að furðu hátt hlutfall þátttakanda "fóru alla leið" og gáfu mesta straum sem hægt var að gefa (450 volt). Þetta er mjög áhugaverð tilraun, en ítarlegri lýsingu er að finna hér. Milgram endurtók síðan þessa tilraun margoft og skoðaði þá m.a. áhrif einkennisbúningsins. Í ljós kom að fólk hlýddi rannsakandanum mun frekar þegar hann var klæddur hvítum sloppi en þegar hann var í venjulegum fötum.

Þau Geffner og Gross ákváðu að rannsaka þessi áhrif einkennisbúnings frekar. Árið 1984 létu þau mann standa hjá gangbraut á Mannhattan. Hann bað fólk um að nota frekar næstu gangbraut í stað þeirrar sem hann stóð hjá (en þessi beiðni hafði augljóslega í för með sér óþægindi fyrir fólkið enda er ekki gott að þurfa að leggja töluverðan krók á leið sinni þegar maður er að flýta sér). Þegar maðurinn var í venjulegum fötum voru fáir sem fóru að tilmælum hans, en þegar hann fór í vegavinnuvesti þá hlýddi fólk miklu frekar og gekk lengri leiðina. Þar sem ekkert athugavert var í gangi við gangbrautina sem hann var að vísa fólki frá (það var enginn að fara að mála/grafa skurð/gera eitthvað sem skýrði þessa beiðni) þá er búningurinn það eina sem skýrir muninn.

Í báðum þessum tilraunum var búningurinn í samhengi við aðstæðurnar, hvítur sloppur í tilraunaumhverfi og vegavinnuvesti úti á götuhorni - en hvað gerist þegar einkennisbúningurinn er ekki í samræmi við aðstæður?

Til að komast að þessu ákváðum við Lydía Ósk að skoða hvort fólk hlýðir frekar manneskju í læknaslopp heldur en í venjulegum fötum, við aðstæður keimlíkar þeim í rannsókn Geffner og Gross. Bílaplanið fyrir utan Háskólabíó var kjörinn staður. Runnarnir liggja, í nokkrum röðum, þvert á gönguleiðir frá bílastæðum að húsinu sjálfu. Runnarnir eru það þétt vaxnir að eina leiðin til að komast að bíóinu er að ganga eftir gönguleiðunum sem liggja í gegnum runnanna (haha, vá hvað mér tekst að flækja þetta.. ég geri bara ráð fyrir að lesendur hafi first-hand reynslu af þessu bílaplani og útskýri þetta því ekki frekar). Ég tók mér stöðu á stígnum í miðjunni, en sá var valinn til að hámarka fjölda vegfarenda og til að fólk þyrfti að leggja á sig töluverðan krók ef það valdi að ganga aðra leið.

Þegar fólk labbaði framhjá mér stöðvaði ég það með orðunum “Afsakið, værirðu nokkuð til í að ganga annaðhvort hér [ég benti til hægri] eða hér [benti til vinstri]”. Báðir valmöguleikarnir höfðu í för með sér lengri göngu að bíóinu. Ef vegfarandi spurði af hverju sagði ég: “Ég get því miður ekki sagt þér af hverju”. Ástæðan fyrir því að svarið var svona hlutlaust og fól ekki í sér neina skýringu fyrir beiðninni var sú að slíkt hefði hugsanlega getað breytt hegðun fólks. Ef ég hefði ekki svarað neinu hefði það líklega túlkast sem dónaskapur og slíkt hefði líka getað haft áhrif á hegðun fólks.

Alls stöðvaði ég 40 manns. Í helming tilvika var ég í venjulegum fötum (gallabuxur, svört kápa og vettlingar) en annars var ég í hvítum læknasloppi með hlustunarpípu um hálsinn. Tilraunin var gerð tvo morgna í röð, fjóra tíma í senn. Þetta var gert til að takmarka þau áhrif sem mismunandi tími dags gæti haft á niðurstöður. Báða dagana var ég í venjulegum fötum þegar ég talaði við fyrstu tíu þátttakendur og í slopp með hlustunarpípu um hálsinn þegar ég talaði við seinni tíu. Ef ég hefði verið í slopp einn daginn og venjulegum fötum hinn daginn hefði þriðja breyta, til dæmis veðurfar, hugsanlega getað skekkt niðurstöður.

Lydía parkeraði bílnum sínum rétt hjá og fylgdist síðan með í laumi og skráði niður fjölda þátttakenda sem hlýddu og hlýddu ekki. Veðrið var frekar leiðinlegt, rigning, snjókoma og kuldi, svo þegar enginn var sjáanlegur hoppaði ég inn til hennar og hlýjaði mér. Við skemmtum okkur konunglega, drukkum kaffi, borðuðum mandarínur og sögðum "Við erum á steíkáti... í Sandgerði!" í tíma og ótíma.

Niðurstöðurnar komu mér á óvart: Þegar ég var í venjulegum fötum hlýddu 40% af þeim sem ég stöðvaði og löbbuðu lengri leiðina. Hin 60 prósentin héldu sínu striki (og héldu ábyggilega að eitthvað væri að mér). Hinsvegar... þegar ég var í læknissloppinum og með hlustunarpípuna hlýddu 90% þeirra sem ég stöðvaði. 90%!!!

Mér finnst merkilegt að "venjulega Ásdísin" hafi tekist að láta 40% (þ.e. átta manns af 20) hlýða sér. Hvað fór í gegnum huga þessa fólks, afhverju hlýðir maður svona undarlegri beiðni? Einnig finnst mér stórmerkilegt hvað áhrif læknasloppsins eru mikil. Hugsið ykkur hvað þetta er órökrétt! Í fyrsta lagi að hlýða og ganga lengri leiðina, í kulda og rigningu, án þess að nein ástæða sé gefin fyrir beiðninni. Í öðru lagi: Hvað í ósköpunum ætti læknir að vera að gera á bílastæði Háskólabíós? Afhverju hlýðir fólk frekar lækni en venjulegri stelpu við þessar aðstæður? Hvaða ástæðu gæti læknir mögulega haft fyrir því að biðja fólk um að leggja krók á leið sinni í átt að Háskólabíó?

Átta af 20 hlýddu mér, 18 af 20 hlýddu læknis-mér. Mér finnst þetta alveg stórskemmtilegar niðurstöður.

Engin ummæli: