Þegar ég var lítil fórum við mamma og kerran mín stundum í göngutúr í Nyhavn. Við skoðuðum mannlífið, fengum okkur ís og nutum veðurblíðunnar (því það var jú alltaf gott veður þá). Þegar við gengum framhjá gamla, fallega húsinu úti á enda sem eitt sinn var pakkhús en var nú orðið fínt hótel, þá horfðum við inn um gluggana og dáðumst að því sem fyrir augu bar. Mamma ákvað að einn góðan veðurdag skyldi hún gista á þessu hóteli ásamt fjölskyldu sinni - and so we did.
Við flugum út síðasta fimmtudag, fjölskyldan og amma, í tilefni fimmtugsafmælis mömmu minnar. Fimmtug, að hugsa sér! Við lentum í Kastrup um eitt leytið og sátum í sólinni í Nyhavn, með bjór í hönd, um hálf þrjú. Um kvöldið fórum við í nýja óperuhúsið og sáum Simon Boccanegra eftir Verdi. Eða, réttara sagt, sum okkar sáu Simon Boccanegra, aðrir sváfu og hrutu. Eftir óperuna hitti ég Dabba og Möggu yfir bjór og páskaeggi í hliðarherbergi á huggulegum bar. Við bjórdæluna sat einstaklingur, stór í sniðum með mikið hvítt hár og kúrekahatt, sem var líklega kona en hugsanlega karl.
Daginn eftir gerðum við stutt stopp í H&M og við Óttar keyptum okkur eins peysur. Ekki óvart, ég tek það á mig. Við ákváðum að þetta væri ekki hallærislegt heldur fyndið.
Svo fórum við í Zoologisk Have og Tivoli, hittum gamla vini og nutum lífsins í ró og spekt. Á afmælisdegi mömmu létum við Kim Larsen fylla okkur andagift. Hann samdi nefnilega eitt sinn lag sem heitir Familien skal i skoven. Fyrsta erindið er svona:
Det er sommer og
familien skal i skoven.
Himmelen er blå,
ikk' en sky for oven.
De snubber
et kystbanetog
til den nærmeste oase.
Og þannig var það. Himininn var heiður og blár, sólin skein og við snúbbuðum kystbanetog og fórum í Dyrehaven, skóginn sem Kim söng um.
Þetta var í alla staði frábær ferð. Gaman að líta upp úr bókunum og svonahh.. og vera með skemmtilegu fjölskyldunni minni. Og Danmörk sko, ooo já. Ég elska Danmörku.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli