þriðjudagur, apríl 10, 2007

Í myndinni You´ve got mail með Tom Hanks og Meg Ryan er karakterinn hans Tom alltaf að koma með línur úr Godfather myndunum. Eða alltaf og alltaf.. allavega minnist hann á byssur og canoli og leikur atriðið þar sem afskorið hestahöfuð finnst uppi í rúmi. Meg Ryan fattar síðan ekki neitt, því hún, eins og svo margir, er ekki búin að sjá Godfather trílógíuna. Í staðinn setur hún stút á munninn og blikkar augunum krúttlega.

Til að vera ekki eins og Meg Ryan ákváðum við fjölskyldan fyrir ekkisvolöngusíðan að halda Godfather-maraþon. Við horfðum á eitt og tvö með viku millibili og svo var horft á þriðju í gærkvöldi. Mér fannst þær allar mjög góðar, en eitt og tvö fannst mér þó bera af. Reyndar felldi ég tár (lesist: hágrét) yfir lokaatriðinu í gær en ekki yfir fyrri myndunum. Það er samt nokkuð ljóst að grátur er enginn gæðastimpill hjá mér, því ég hef líka grátið yfir tryggingaauglýsingu. Og brúðkaupsþættinum Já.

Maraþonið gekk frekar vel, þrátt fyrir ýmsar smávægilegar uppákomur. Pabbi var búinn að sjá allar myndirnar og gat ekki fyrir sitt litla líf sleppt því að benda okkur hinum á að nú væri eitthvað spennandi að fara að gerast. Sjáiði nú, gardínurnar eru dregnar frá.. Einn-tveir-þrír! (og þá hófst skothríð). Óhóóóþolandi, en samt frekar fyndið svona eftir á.

Núna mun ég þurfa að haga mér eins og Tom Hanks og vitna í Godfather hægri vinstri. Átti meira að segja rosa gott mafíu-móment í gær þegar ég sagði hænumömmu vera að fara að sofa hjá fiskunum. Reyndar held ég að þetta klassíska "steypuklessa á fótum óvinarins, ferð niður að höfn" sé ekki komið úr Godfather. En samt... fáró gott.

Engin ummæli: