fimmtudagur, maí 03, 2007

Ég má til með að klappa sjálfri mér á bakið. Mér tókst að koma mér í aðstöðu sem er verri en sú sem ég lýsti hér tveimur færslum neðar.

Gamlaaa...

Fyrir stuttu voru hvalaskoðunarfyrirtækin Elding og Hafsúla sameinuð undir nafninu Reykjavík Whale Watching. Síðasta mánudag var haldinn staffafundur til að "við" og "þau" gætum öll hist, blandað geði og styrkt böndin fyrir sumarið. Mjög gott mál.

Við byrjuðum á því að hittast í hvalasetrinu í Reykjavíkurhöfn, fengum bjór og smalltalkuðum. Síðan var siglt út í Viðey þar sem blinda listaverk Ólafs Elíassonar var skoðað og náttúran dásömuð. Svo var okkur boðið í mat í Viðeyjarstofu og þetta var allt voða huggulegt. Meðan á borðhaldi stóð áttu allir að standa upp og kynna sig, og fannst mér það vel til fundið. Ég var búin að drekka bæði bjór og rauðvín og var því, eins og allir hinir, létt og hress. Ræðan mín var samt ekki það versta sem kom út úr munni mínum þetta kvöldið. Það er ekki hún sem mig langar til að eyða úr minni samstarfsfélaga minna, þó svo að ég hafi hlæjandi lagt til að nýja fyrirtækið myndi heita Eldsúlan (lúúúði). Það er ekki heldur fimleikasýningin sem við Eva og Edda stóðum fyrir áður en aftur var rölt niður í bát. Ónei.

Þegar við komum í land í Sundahöfn bað ég nærstadda um tyggjó og fékk strax tvö gefins. Það var exótískt ávaxtabragð af þeim. Við stigum öll upp í rútu og ekið var að Reykjavíkurhöfn. Þegar leiðin var hálfnuð varð mér skyndilega allhressilega óglatt. Ég fölnaði upp og kaldur sviti spratt fram í andliti og víðar. Ég þurfti að hanga í sætisbakinu fyrir framan mig til að lyppast ekki niður á rútugólfið. Ég man að Rannveig og Vignir, ex-Eldingarfólk, og Helga, ex-Hafsúlukona stumruðu áhyggjufull yfir mér. Yfirmenn mínir, gömlu og nýju!

Þegar við komum niður að höfn valt ég út úr rútunni og að hafnarbakkanum þar sem ég hnipraðist saman. Mér leið svo illa, ó, svo illa. En ég skildi þetta ekki! Ég var nú ekki búin að drekka svona mikið, hvað var í gangi? Einhverjir stóðu yfir mér og struku á mér bakið og þegar sviminn leið hjá var mér hjálpað upp í bíl. Ég var enn föl og sveitt.

Ég held að bílinn hafi komist svona þrjá metra áður en ég rétti upp hönd (vel upp alin greinilega) og bað fólk um að afsaka mig. Svo fór ég út, lagðist endilöng á jörðina og hugsaði myrkar hugsanir.

Í ljós kom að tyggjóin sem ég fékk voru engin exótísk ávaxtatyggjó, heldur 4 mg nikótín bombur. Ég var búin að vera japlandi á tveimur í einu, þannig að átta milligrömm af nikótíni æddu nú um líkama manneskju sem hefur í mesta lagi stundað óbeinar reykingar. Held að hugtakið nikótíneitrun sé ekki óviðeigandi í þessu samhengi.

Svo ég ældi.

Ég ældi á hafnarbakkann, fyrir framan yfirmenn mína og samstarfsfélaga sem margir hverjir voru að hitta mig í fyrsta sinn. Way to go. Svona á að fara að því að koma vel fyrir! Ég er viss um að nýja fólkinu finnist mikill fengur að mér og geti ekki beðið eftir að ég klári prófin og mæti til vinnu.

Engin ummæli: