sunnudagur, maí 09, 2004

Það eru litlu hlutirnir...
Ég keyrði Sæbrautina tvisvar í dag, og lenti aldrei á rauðu. Ég fékk mér SvissMokka á Kaffitár og þurfti ekki að borga. Ég heyrði lagið Susy Q með CCR í útvarpinu og komst að því að ég kann textann. Sá ljóshærða, tvítuga gellu bora í nefið og borða afraksturinn á rauðu ljósi á Breiðholtsbrautinni. Fékk síðan illa fengið sumarblóm úr garði nágrannans þegar ég kom heim. Litli strákurinn sem gaf mér það brosti blíðlega og sagði "gleðilegt sumar, stelpa!".

Fróðleikur dagsins: Að pissa í bagga einhvers. - gera einhverjum greiða.
Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur ull verið mikilvægt hráefni í heimilisiðnað landsmanna. Fyrr á öldum var unnið úr sem næst allri ull heima, en á síðari tímum fluttu bændur hluta af ull sinni í böggum til kaupstaðar og seldu. Þeir fengu greitt eftir gæðum ullar og þyngd, jafvel lit. Óprúttnir menn stráðu stundum sandi í ullina sína eða bleyttu hana ögn til þess að þyngja hana. Þá fengu þeir meira fé í eigin vasa ef kaupmaður varð ekki var við svikin. Þeir sem pissuðu í bagga vinar síns voru því að gera honum greiða, ullin þyngdist ögn og kaupmaður greiddi þeim mun meira nema honum yrði pretturinn ljós.
Ég verð einhvern tíma að pissa í baggana þína til að launa þér greiðviknina.

Engin ummæli: