mánudagur, maí 17, 2004

Ég er stödd á Þjóðarbókhlöðunni. The Bookbarn, Þjóbó... Mikið hrikalega eru margir skemmtilegir karakterar hérna! Fyrstan ber að nefna Störupétur, sem sat vinstra megin við mig í gær. Alltaf þegar ég leit upp þá var hann starandi á mig.. ekki stundum, nei nei, alltaf.. og ekki á svona mikið-ertu-sæt-stelpa-mig-langar-að-kynnast-þér-betur-háttinn, heldur horfði hann þannig á mig að ég var farin að óttast um líf mitt. Svo sat hann Eyrnatappapétur fyrir framan mig í dag. Hann er frábær! Á borðinu hans eru samtals 18 skærgrænir eyrnatappar. ÁTJÁN! Ég taldi þá meðan hann skrapp frá. Þegar hann kom aftur fór hann að raða töppunum í fallegt munstur.
Svo er ég búin að ákveða að þegar ég verð gömul ætla ég að vera grúskari, rétt eins og krúttlegu gömlu karlarnir sem ganga hér um. Einn þeirra heyrir greinilega mjög illa, og talar þar af leiðandi afar hátt. Áðan var hann að leita að hinu íslenska fornbréfasafni, rit nr. XIV. Þá þurfti hann að fara á 2. hæð.

Engin ummæli: