föstudagur, maí 14, 2004

Tók mér pásu frá stjörnufræðilestri í dag til að horfa á (hluta) af brúðkaupinu danska. Heili minn og hjarta háðu hetjulega baráttu sín á milli, því jafnvel þó svo mér finnist konungsveldafyrirkomulagið danska asnalegt og úrelt, þá gat ég ekki stillt mig um að fella nokkur tár brúðhjónunum til samlætis.
Hún Mary hlýtur að elska hann krónprins voða mikið fyrst hún er tilbúin í þennan pakka. Get ekki ímyndað mér að vera lögfræðingur á uppleið einn daginn, og svo allt í einu að verða prinsessa sem fær ekki að hafa eigin tekjur, heldur fá í staðinn framfærsluaur frá eiginmanninum. Ekki get ég þó sagst vorkenna henni, ó sei sei nei.. enda er Frederik ekki leiðinlegur gaur að giftast.
Við Frederik höfum nefnilega þekkst frá því ég var lítil. Hann man það líklega jafn vel og ég þegar við horfðumst í augu og tókumst í hendur árið 1989. Síðan þá hefur hann verið minn uppáhalds prins. Það er líka eitthvað bad boy attitude svífandi yfir vötnum, sem er frekar heillandi. Hann hefur verið böstaður fyrir of hraðan akstur (var hann drukkinn, ég man það ekki?), er alltaf með svona "glimt í øjet" og svo kann hann að kafa! Gerist það betra?
Ég vona að þetta verði hamingjusamt hjónaband, og að prinsinn minn öðlist allt hið dásamlega sem hann á skilið.

Engin ummæli: