fimmtudagur, júní 03, 2004

Ef það er eitthvað sem ég fatta ekki, þá er það hversu vel bílahönnuðir fela handbremsuljósið.
Þegar ég þreytti bílprófið á vínrauða diesel-kagga ökukennara míns, tók ég ekkert eftir P-ljósinu sem var vandlega staðsett í hvarfi bak við stýrið. Hlaut ég því tvö feit mínusstig fyrir heimsku áður en út í umferðina var haldið.
Í dag fór ég svo á fyrirtækisbílnum í snattferðir... Obbobobb!
Þar sem bílinn sem ég ek að jafnaði, gamli grái Saab-inn, er "bíll með persónuleika" þarf ég alltaf að vanda mig þegar ég keyri venjulega bíla, muna að kúplingin er vinkona mín og minna sjálfa mig á að engin þörf er á að beita afli við skiptingar. Ég var því með hugann við allt nema handbremsuna þegar ég settist inn í rauðu drossíuna í dag. Yfirmaður minn stóð álengdar og var að tala við túristana. Ég ræsti bílnum hans og setti í bakkgír. "Hmm.. eitthvað er hann nú þungur þessi bíll, hlýtur að vera mölin bara!" Ég var búin að keyra frá hafnarbakkanum að Borgarabúllu Tómasar, búin að reyna að skipta í annan gír tvisvar, og enn furðandi mig á undarlegheitunum þegar ég fattaði að þetta gæti hugsanlega verið handbremsan. Þá tók ég eftir pínulitla P-ljósinu í hægra horni mælaborðsins. Ahh.. ekki gott.
Mér til varnar (*hóst*) þá var handbremsan bara dregin upp til hálfs, mjög stutt og þakin pappírsrusli, þannig að erfitt var að sjá að hún var í notkun nema að horfa á ljósið í mælaborðinu. Já, gott gott.. þetta útskýrir allt. Takk!

Engin ummæli: