miðvikudagur, september 29, 2004

Ætlaði að sprengja dugnaðarskalann í gær og elda mér kvöldmat. Venjulega hefur sú eldamennska falið í sér að grilla samloku með osti og aspas, en í gær ákvað ég að gera bragarbót þar á og elda for real.
Ég nennti ekki út í búð, svo fyrir valinu var "sörpræs-rétturinn" sniðugi. Þá er innihald ísskáps og eldhússkáps athugað og svo unnið út frá því. Við leit að æti fannst tómatur, útrunnið skyr, gúrkubiti, ostur, hálfur jöklasalatshaus, núðlur, hrökkbrauð, pepperóníostur (var á tilboði í Melabúðinni!), furuhnetur, þrjár sultukrukkur (heimatilbúið góðgæti, ein frá Hönnu Rut, hinar frá mömmu og ömmu), túnfisksdós og tyggjó. Hemmhemm.. ókei, núðluréttur skal það vera! Sauð núðlur (gekk eins og í sögu) og ákvað að prófa að skella þeim síðan á pönnu ásamt tómatbitum og pepperóníostinum. Þegar þetta var búið að malla í pínu stund fannst mér litirnir svolítið einhæfir og mundi þá að ég átti jöklasalat. 1-2-3 Daddara, þrír litir komnir á pönnuna! Stráði síðan furuhnetum yfir dýrðina, því mér finnst þær svo góðar. Sviss, sviss, sviss - núðluréttur tilbúinn.
Þegar þarna var komið við sögu var ég samt orðin pínu efins um hæfileika mína í gerð sörpræs-réttar.. og sá illi grunur var staðfestur þegar ég fékk mér fyrsta bitann.
Þetta var v-i-ð-b-j-ó-ð-s-l-e-g-t!
Er búin að gera mér grein fyrir að ef börnin mín eiga að komast á legg, þá neyðist ég til að giftast kokki.

Engin ummæli: