miðvikudagur, október 27, 2004

Aðra hvora helgi héreftir, mun ég klæðast svörtum buxum, hvítri karlmannsskyrtu, dökkbláu vesti og vínrauðu bindi. Ég mun standa mína pligt við mannkynið og gesti Hótel Sögu. Þjónn/barþjónn, fjögur kvöld í mánuði, til að eiga pening fyrir brennivín og kellingar.. nei djók, fyrir mat og mjólk. Ég vann fyrstu vaktina um helgina. Föstudagskvöldið gerði ég þau reginmistök að mæta í támjóum stígvélum, þjónaði til borðs í Súlnasal (júbilantaballsnostalgía), og gat varla gengið heim að vakt lokinni vegna eymsla í fótum. Á laugardeginum ákvað ég að sýna smá fyrirhyggju og mætti í hinu svarta skóparinu mínu.. gömlu innanhúsíþróttaskónum! Enginn gerði athugasemd við skótauið, svo þeir verða líklega fyrir valinu næst líka.
Laugardagskvöldið vann ég niðri í Sunnusal. Þjónaði til borðs og serveraði á barnum til kortér í þrjú. Hef reyndar sjaldan orðið fyrir jafn miklu áreiti og þessa klukkutíma sem ég var á barnum! Sveittir, miðaldra útlendingar mændu á brjóst mín (sem þó voru vel falin bakvið skyrtu og vesti) og einn gerðist svo frakkur að segja mér að varir mínar væru svo yndislega þrýstnar að hann gæti ekki afborið öllu lengur að fá bara að horfa. Þegar hann rétti mér síðan miða með herbergisnúmerinu sínu krotuðu á, flúði ég af barnum.
Þegar litið er framhjá eymsli fóta og hnjaski viðkvæmrar sálar, þá virðist þetta vera mjög skemmtileg vinna.

Engin ummæli: