fimmtudagur, október 21, 2004

Ég held að ég hafi aldrei áður misst jafn mörg rokkprik á jafn skömmum tíma eins og í morgun. Ég er sumsé í lærdómshóp á fimmtudagsmorgnum. Við hittumst heima hjá mér (úje, því ég á heima nálægt HÍ, en hin úti í rassgati) þrjár stelpur og tveir strákar. Þetta er afskaplega sniðugt fyrirkomulag - ef það er eitthvað í lesefni vikunnar sem þér finnst erfitt að skilja þá færðu útskýringu hjá hinum, og svo græðir maður líka á því að þurfa að útskýra fyrir einhverjum eitthvað sem maður skilur sjálfur.
Nema hvað.. í dag komust hinar stelpurnar ekki, þannig að þetta var þriggja manna session, ég og tveir strákar sem ég þekki ekki vel. Við vorum að ræða um person perception eða það hvernig við viljum láta "skynja" okkur, og hvernig við skynjum annað fólk. Ég var með bókin opna fyrir framan mig, og á vinstri spássíu opnunnar var mynd af Han Solo og Leiu prinsessu að kyssast innilega, og í undirtextanum stóð "First impressions - In the movies it is common for two figures to hate each other initially but grow to love each other, as Han and Leia did. In real life, however, this pattern is quite rare, and our first impression of someone often dominates all our subsequent perceptions of them."
Eftir að hafa skoðað þessa innilegu kossamynd í smá stund fór ég að pæla upphátt og sagði (ekki orðrétt haft eftir, þetta hefur alveg pottþétt verið aulalegra þá): "Djöfull er í raun asnalegt að kyssast! Ha? ..Sko, hahaha ..Sjáiði? Pælið í því að við látum varir okkar snertast til að sýna væntumþykju.. opnum jafnvel munninn og látum tungurnar okkar inn í munn hins! Hahahaha"

Þögn

"Nei, hugsið út í þetta.. við erum einu dýrin sem gerum þetta, þetta meikar ekkert sens!? ... Þetta er í raun frekar kjánalegt.. svona kossaflens... hehehe?!"

Þögn

Svo litu þeir á hvorn annan, svo á mig. Strákur 1: "Jaaaáh.. jæja, allavega.."

Ég get ekki ímyndað mér að þeir hafi fengið neitt sérlega gott first impression af mér.

Engin ummæli: