þriðjudagur, október 12, 2004

Í gær brá ég mér í heimsókn í foreldrahúsin. Markmið langferðarinnar var að nota prentarann fína til að prenta út heimaverkefni og æfingar, vegna þess að ég hef ekki enn hafið mig í það að kaupa prentkvóta hérna í skólanum. Eina kreditkortið sem ég á er svona fyrirframgreitt plebbakort, sem dugar skammt þegar versla á varning á netinu. Oh! Að prentun lokinni var mér svo boðið í kvöldmat og huggulegheit, sem (að sjálfsögðu) var þegið með þökkum. Málin æxluðust þannig að eftir Sopranos var enginn í stuði að skutlast bæjarhluta á milli, og þar sem ég er ekki mikill aðdáandi strætókerfisins (sérstaklega ekki í vondu veðri) var afráðið að ég myndi gista og fá svo far í skólann um morguninn. Vaknaði svo í morgun, úthvíld, í gamla rúminu mínu í galtómu herbergi. Tók síðan þátt í troðningnum frammá baði, borðaði morgunmat og klæddi mig í lopasokka (í þeirri röð, mjög mikilvægt). Að skilnaði var ég leyst út með gjöfum: Afgangur af kvöldmatnum í plastboxi, allur póstur sem mér hafði borist síðastliðnar vikur (ekki neitt spennandi samt), bók sem ég hafði lánað mömmu og 425 g Cheerios-pakki. Svo nú sit ég á Bókhlöðunni með Cheerios-pakkann minn og bankayfirlitin.. tilbúin að takast á við daginn!

Engin ummæli: