fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Ég hef sjaldan verið eins ógeðslega óánægð með sjálfa mig og ég er núna. Löðrungið mig!
Harmsaga þessi hófst síðastliðinn sunnudag, þegar ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til að byrja ekki á rökfærsluritgerð um hvort greind sé áunnin eða ásköpuð. Ritgerðinni átti að skila fyrir klukkan 24, þriðjudaginn 9. nóvember, og þrátt fyrir að tíminn væri nú þegar orðinn naumur, þá fann ég mér sífellt nýjar afsakanir til að byrja ekki á þessu. Mánudagurinn leið og ekkert bættist við nema (ofboðslega fín og vel unnin) forsíða. Á þriðjudeginum, skiladeginum mikla, fór ég á námskeið á Hótel Sögu í framreiðslu og þjónareglum. Námskeið þetta endaði í vínsmökkun, og þar sem ég var ekki búin að borða neitt voðalega mikið þann daginn (hey! maður er sko að spara) var ég einstaklega næm fyrir áfengispúkanum. Smökkun mín fór verulega úr böndunum.. svo vægt sé til orða tekið.
Þegar yfirþjónninn spurði mig blíðlega rétt eftir tólf (skilafrestur ritgerðar útrunninn) hvort ég væri nokkuð á bíl, fattaði ég að ég var orðin pissfull. Á þriðjudegi. Ég hafði ekkert staðið upp meðan á smökkun stóð, svo áhrif vínflasknanna sem ég náði að svolgra í mig komu ekki fyllilega í ljós fyrr en ég hóf göngu mína heim. Eins og versti róni klöngraðist ég heim og fann hvernig jafnvægi mitt varð lélegra fyrir hvert skref sem ég tók. Að lokum gat ég ekki gengið nema í S-laga línu. Ástand mitt kom mér verulega á óvart. Þegar ég loks komst inn á stigagang þurfti ég að skríða upp stigann, sem einhverra hluta vegna virtist mun brattari en ella. Þaðan lá leiðin beint inn á klósett þar sem ég eyddi dágóðum tíma í að skila þeim litla mat sem ég hafði innbyrt. Ég skammaðist mín svo hryllilega mikið, sitjandi á rauða frotté-teppinu, með tár í augunum vegna þess að enginn var mér til halds og trausts. Eftir gubb-session reif ég mig úr buxunum og hrundi í rúmið, með massíft samviskubit yfir að hafa ekki skilað ritgerðinni.
Morguninn eftir vaknaði ég með dúndrandi hjartslátt í heilanum. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn ógeðslega þunn! Þegar ég leit í spegilinn langaði mig mest að fara að grenja. Þunn á miðvikudegi, varla byrjuð á ritgerðinni sem átti að skila deginum áður. Hvaða helvítis stjórnleysi og aumingjaskapur er í gangi!?
Þar sem ég vildi ekki missa af fyrirlestrum dagsins píndi ég mig í sturtu og fór síðan út í Háskólabíó. Hvort hnúturinn í maganum var vegna þynnku eða samviskubits veit ég ekki. Þegar fyrirlestrum var lokið dreif ég mig heim, settist við skriftir og er enn að. Þetta er ekki eins erfitt og ég var búin að telja mér trú um.. og ég er reyndar að skrifa þrusugóðan texta að eigin mati - ég er bara allt of seint á ferðinni! Ritgerðinni verður skilað snemma í fyrramálið, 11. nóvember, tveimur dögum seinna en ætlað var.
Þessi aumingjaskapur kostar mig -0,5 í einkunn.
Þetta er svo ólíkt mér, og ég hef ekki minnstu hugmynd hvernig stendur á þessu rugli.

Engin ummæli: