mánudagur, nóvember 08, 2004

Vegna myrkursins í morgun eru ljós mér hugleikin.
- Fyrir nokkrum árum komu til landsins erlendir hönnuðir sem áttu að gera útlit Kringlunnar smartara. Gott ef þetta var ekki rétt fyrir opnun Smáralindarinnar. Hugmynd hönnuðinna var að láta tvo hreyfanlega ljóskastara lýsa konstant upp í loft, í anda Óskarsverðlaunahátíðarinnar. Hugmyndin reyndist hinsvegar erfið í framkvæmd, því í ljós kom að á Íslandi er ekki nægilega mikil mengun til að svona ljósasjó takist. Ljóssúlurnar hefðu ekkert endurkastast, heldur horfið út í geim þegar ekki væri rigning eða þoka.
Svo er ný prentsmiðja Morgunblaðsins risin rétt hjá Rauðavatni. Hvítir stafir á framhlið hússins (you guessed it, m-o-r-g-u-n-b-l-a-ð-i-ð) eru frekar kúl. Ekkert old school "flúrljós-fyrir-aftan-hvítt-plast" dæmi.. Ó neinei. Stafirnir eru gerðir úr akrýlplasti með ljósdíóðum - ekki ósvipuð smíð og tölvuskjár. Vöngum var velt um það hvort stafirnir ættu að lýsa hvítu eða svörtu. Mér fannst svörtu stafirnir mjög flottir, en þeir sáust mjög illa þegar kvölda tók. Ekki skrýtið kannski.
Svo hef ég, og flestir aðrir borgarbúar, tekið eftir nýju umferðarljósunum sem sjá má á Miklubrautargönguljósunum, rétt hjá DV og Fréttablaðinu, og á nýju gatnamótunum fyrir neðan slökkvistöðina í Öskjuhlíðinni. Ljós þessi eru mun skærari en gömlu. Svo miklu skærari að þau skera í augun ef maður horfir beint í þau. Um þau veit ég ekki neitt, nema að þau eru sparneytin á orku.
Þetta var nú upplýsandi.

Engin ummæli: