mánudagur, febrúar 21, 2005

Þórdís Lilja, blaðamaður hjá Fréttablaðinu, nefnir netkönnun útgáfufélagsins Heims í pistlinum Við tækið í dag. Í könnuninni er spurt, undir yfirskriftinni Karlaveldi, "Eru konur jafnhæfar körlum til að stjórna fyrirtækjum?" og svarmöguleikarnir Já, Nei - óhæfari og Nei - hæfari gefnir. Þórdís segir að eftir að frétt þess efnis að 95% svarenda töldu konur ekki jafnhæfar körlum var lesin í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, hafi konur farið að senda kynsystrum sínum tölvupósta með hvatningu um að taka þátt í könnuninni og kjósa konum í hag. Um fimmleytið í dag var staða könnunarinnar slík að 49% svarenda töldu konur óhæfari körlum, 44.7% töldu konur jafnhæfar og 6.3% töldu þær hæfari.
Í pistlinum segir Þórdís Lilja líka að "...þess háttar netkosningar [eru] óvísindalegar og ekki endilega mark á þeim takandi." Raunin er samt að það er EKKERT mark takandi á hverskonar könnunum sem ekki eru unnar með vísindalegum hætti. Burtséð frá skoðun minni á hæfni kvenna til að stjórna fyrirtækjum, þá finnst mér fyndið að einhver (kona) hafi nennt að eyða tíma sínum í að búa til hvatningnarkeðjubréf og að fjöldinn allur af konum hafi séð ástæðu til þess að framsenda þessum pósti. Hverslags minnimáttarkennd er þetta eiginlega? Til hvers að hafa áhyggjur af útkomu netkönnunar á vefsíðu lítils útgáfufyrirtækis? Ólíkt alvöru skoðanakönnunum, þar sem skoðanir lítils úrtaks eru yfirfærðar á heilu þjóðirnar, endurspeglar óvísindalega unnin skoðunarkönnun ekkert annað en skoðun þeirra einstaklinga sem höfðu fyrir því að taka þátt.
Mér er nákvæmlega sama hvort lesendur Heims.is telja konur óhæfari körlum til að stjórna fyrirtækjum! Sýnið mér niðurstöður vísindalega unnar könnunar sem segir 95% allra Íslendinga telja konur óhæfari körlum, og þá skal ég semja og framsenda eins marga hvatningarpósta og þið viljið.

A - Anton aus Tirol, klárlega eitt besta þýska popplag sem ég hef heyrt! Það er afar erfitt að losna við lagið úr heilanum þegar maður er á annað borð kominn á bragðið. Ich bin so schön , ich bin so toll. Ich bin der Anton aus Tirol...

Engin ummæli: