fimmtudagur, febrúar 03, 2005

"Ásdís, hefurðu nokkuð á móti innibombum?" spurði Elín Lóa símleiðis, að morgni nýársdags. Uhm.. innibombum?
"Ég hef bara ekki myndað mér neina skoðun á innibombum?!"
"Alltílæ.. ég kem bara með hana."

Svo mættu þau galvösk til mín, Snæbjörn og Elín Lóa - klukkan að slefa í sjö en þau ennþá í blússandi stuði. Úr farteski sínu dró Elín Lóa einn þann stærsta pappahólk sem ég hef augum litið. "Hefurðu nokkuð á móti innibombum?" endurtók hún. Þó svo að ég hafði ekki myndað mér neina skoðun á innibombun, þá var ég sannarlega með fasta og fullmótaða skoðun á tiltekt og þríferíi, og þar sem allir voru hvort eð er að fara var stungið upp á því að við myndum bara sprengja bombuna úti.. enda fínasta bombuveður, léttur andvari og frost.
Þegar við komum út trítlaði Elín Lóa út á miðja götu og togaði í spotta.
KABÚMM
Ég hef aldrei, aldrei nokkurn tímann, verið vitni að öðru eins sjónarspili. Þetta var stórkostlegt! Stærðarinnar ský af glimmerlengjum, pappírssnifsum og húllúmhæjdóti skaust upp í loft og sveif í rólegheitunum, forframað og virðulegt, eftir götunni. Í sæluvímu sinni tók Hanna Rut á rás eftir skrautinu. Það réð sér enginn fyrir kæti, þetta var stórkostlegasta innibomba sögunnar!
Svo man ég að Snæbjörn faðmaði mig fast að sér og hvíslaði "Djöfull hlýturðu að vera ótrúlega fegin að þessi bomba var sprengd úti!"
Enn þann dag í dag má sjá glimmerlengjur og fínerí í runnunum fyrir utan Þjóðarbókhlöðuna.

Engin ummæli: