þriðjudagur, mars 01, 2005

Áðan var ég í verklegum tíma í lífeðlislegri sálfræði þar sem við vorum að mæla fylgni hugarferla og lífeðlislegra ferla. Æfingin nefndist Hughrif og fólst í því að hjartsláttartíðni, blóðþrýstingur, öndunarbylgja og húðviðnám var mælt með aðstoð fjölda nema og stórgerðs sírita (ekki ósvipað tæki og lygamælir löggumyndanna) meðan nokkur verkefni voru leyst. Við vorum fimm í hópnum, ég og fjórir strákar sem ég hafði aldrei talað við en kannaðist við úr fyrirlestrunum. Kennarinn og aðstoðarkennarinn tóku á móti okkur í tilraunastofunni í kjallara Læknagarðs, útskýrðu fyrir okkur tækjabúnaðinn og drógu svo fram stóra túpu með bláu rafleiðnigeli. "Hver býður sig fram sem þolanda... ég meina þátttakanda?" spurði kennarinn. "Ú!" hugsaði ég, og bauð mig fram. Sniðug stelpa.
Neðarlega á vísi- og baugfingur vinstri handar voru sett húðskráningarskaut sem mæla losun úr svitakirtlum. Á löngutöng var settur blóðþrýstings- hjartsláttartíðni- og öndunarbylgjumælir. "Sestu í stólinn þarna og reyndu að slaka vel á" var sagt. Ég kom mér vel fyrir, kennarinn kveikti á slökunarspólu og svo yfirgáfu þeir allir herbergið. Nú skyldi ég sko slaka á. Barokktónlist flæddi um herbergið og rödd yfirsálfræðings Landspítalans kenndi mér afar áhrifaríkar öndunaræfingar. Strákarnir læddust síðan inn tíu mínútum síðar, og hófst þá skemmtunin.
"Jæja" sagði kennarinn. "Sjáiði, hjartslátturinn er miklu hægari núna, öndunin er regluleg og BÖÖÖÖHH!!! - Já sko! Þarna sjáiði það sem við köllum startle response, tókuð þið eftir hvernig penninn sem skráir hjartsláttartíðni kipptist við?" Hvað var ég búin að koma mér út í?
Þegar hjartað mitt var búið að jafna sig og allar línur síritans orðnar eðlilegar aftur dró kennarinn fram fimm spil. Ég var látin draga eitt spil og leggja það á minnið. "Nú stokkum við og sýnum þér svo spilin hvert á fætur öðru. Í hvert skipti sem þú ert spurð hvort þetta sé spilið sem þú drógst áttu að neita. Tilbúin?" Eftir mér hafði verið sýnt öll spilin, litu þeir allir á niðurstöður síritans og reyndu að giska hvaða spil ég hafði dregið. Útslögin voru öll frekar jöfn, og þó svo að þeim tókst að giska á rétt spil þá sagði kennarinn að ég væri greinilega fínasti lygari. Það gæti komið sér vel!
Síðan útskýrði hann að næst ætti ég að reikna pínu í huganum. "Tilbúin? Dragðu 191 frá 1209. Fljót!" "Ehh.. 1209 mínus 191?" "Já!! Fljót" "Uuh.. tólfhundruð mínus hundraðogníutíu er ehh.. þúsundogtíu og ehh.." "Fljót! Þú verður að reikna þetta hraðar!" "Já! 1018!" "Einmitt! Svo 1018 mínus 191. Fljót! Hraðar!" "Uhuuu.. bíddu?" Þarna var ég orðin ágætlega stressuð, mér fannst asnalegt hvað ég var lengi að þessu og allt í einu var ég geðveikt meðvituð um að ég var eina stelpan í herberginu. Helvítis. "Hahaha, allt í lagi, þetta er orðið gott. Lítið á hamaganginn í pennunum, þetta er dæmigert þegar maður er undir mikilli pressu eða þegar maður er stressaður."
Svo útskýrði hann næsta verkefni. "Við spyrjum þig nokkurra einfaldra spurninga og þú svarar annaðhvort með já-i eða nei-i. Tilbúin? OK. Ertu Íslendingur? Ertu Reykvíkingur? Ertu í skóm? Er sólskin úti? Hefurðu logið?" Hef ég logið? Ég fann hvernig ég hitnaði að innan þegar ég svaraði með já-i. Ansans spurning! "Horfirðu á sjónvarp? Áttu bíl? Hefurðu ferðast mikið? Ertu falleg?" Er ég falleg? Já maður, glætan að ég segi nei! "Já!" svaraði ég.. og gat ekki hætt að brosa. Ég hafði lýst því yfir við sex karlmenn að ég væri falleg, mikið er hægt að vera hógvær.
Svo var ég látin stinga höndinni í mulinn ís, setja upp mismunandi svipbrigði og draga aftur spil. "Jæja.. þá er æfingin búin, er samt eitthvað í viðbót sem ykkur langar að gera? Eitthvað sem þið viljið spyrja hana um?" spurði kennarinn. Allir strákarnir glottu og ég er ekki frá því að húðviðnámslínan mín hafi skoppað örlítið. "Innan allra velsæmismarka að sjálfsögðu!" bætti hann við.
Ég var látin draga annað spil.

Ð - Ðe Doors, uppáhalds hljómsveitin mín. Forsprakkinn er þessa dagana ber að ofan í svefnherberginu mínu, kynþokkafullu varirnar lokkandi.

Engin ummæli: