sunnudagur, apríl 10, 2005

Ég var á Bókhlöðunni í gær þegar síminn minn hringdi. "Hæ elskan. Nú máttu ekki vera hrædd, en við erum hérna uppi á spítala..."
Pabbi og Óttar höfðu verið í útreiðartúr fyrr um daginn, á harðastökki rétt hjá Rauðavatni, þegar Kuldi, hestur Óttars, missti framfæturnar undan sér og steyptist í kollhnís með Óttar á bakinu. Hesturinn rúllaði yfir hann allan! Óttar lá á bakinu þegar hrossið klöngraðist á fætur, hægri fóturinn flæktur í ístaðinu. Pabbi hentist af baki, tók í jakka Óttars og dró hann út af brautinni.
Í ljós kom að litli bróðir minn er mjaðmagrindarbrotinn við lífbeinið. Nú liggur hann á Barnaspítala Hringsins og verður þar í einhvern tíma.
Maður þorir ekki að ímynda sér hvernig hefði farið ef Kuldi hefði í klöngri sínu stigið á Óttar, eða ef hann, í staðinn fyrir að standa grafkyrr, hefði rokið af stað með Óttar flæktan í ístaðið.
Þvílík helgi.

Uppfært kl.20:41
O og Ó - OfurÓttar. Þvílíkur töffari sem þessi piltur er.

Engin ummæli: