þriðjudagur, apríl 12, 2005

Ég hef aldrei áður, að því ég best veit, verið manneskja sem einhver hræðist. Hinsvegar er ég farin að hafa sterkan grun um að ég sé verulega hættuleg manneskja í augum eins manns. Þessum manni kynntist ég fyrir einu og hálfu ári síðan, þegar ég var í 6. bekkjarráðinu, og þurfti að stunda viðskipti við hann. (Vá hvað mér er að takast vel að leyna persónu hans!) Engin rómantík var í spilinu, svo sem betur fer get ég útilokað þá ástæðu fyrir hræðslunni. Samskipti okkar voru pjúr bissness. Í janúar 2004 rann munnlegi samningur okkar út í sandinn og hann skildi mig og bekkinn eftir í mikilli klemmu. Ég var fúl, hann var sorrí og við skildum að skiptum.
Fyrir tæpum mánuði síðan hittumst við á ný. Hann pikkaði í mig þar sem ég beið eftir afgreiðslu við barinn á Sirkus. Ég var full og hann var sorrí, næstum eins og sætur hvolpur í framan. Hann heilsaði mér með nafni og tók í höndina á mér. Ég kom honum ekki fyrir mér alveg strax, svo hann hafði nægan tíma til að útskýra óáreittur hversu leiðinlegt honum hefði fundist að svíkja mig og að hann vonaðist til að ég gæti fyrirgefið honum. Stelpurnar sem stóðu við barinn við hliðina á okkur hafa ábyggilega haldið að hann væri fyrrverandi kærasti minn, og að ég væri svo eitursteikt og rugluð að ég gæti ekki kveikt á perunni strax. Þetta endaði samt vel, ég sagði honum að ég væri löngu búin að fyrirgefa honum og hvolpasvipurinn góði minnkaði.
Síðan þá hef ég rekist á hann tvisvar, og maðurinn hefur lagt sig í líma við að forðast mig! Fyrsta skiptið var á Bókhlöðunni. Hann var á röltinu framhjá tölvunum á 4. hæð, og þegar hann sá mig tók hann 180° beygju á punktinum og rauk í burtu. Seinna skiptið var á Laugaveginum. Við vorum sömu megin götunnar, hann að ganga upp og ég niður. Þegar augu okkar mættust tók hann kipp og skaust inn í Kúnígúnd.
Ég skil þetta ekki.

Engin ummæli: