miðvikudagur, apríl 06, 2005

Nú stendur árleg námskeiðaskráning yfir í Háskólanum, og sit ég sveitt yfir kennsluskránni og reyni að sníða mér fallegan námsstakk. Samkvæmt (afar skynsamri) tillögu sálfræðideildarinnar að námsleið er gert ráð fyrir að maður velji sér eitt þriggja eininga valnámskeið næsta haust, og er ég í mestu vandræðum með að ákveða mig. Ég hef áhuga á að taka kúrs í réttarsálfræði og sálfræði kynjamunar en það er bara kennt á vorönn svo ég fer ekki í það fyrr en á 3. ári. Af þeim haustfögum sem ég get valið um hef ég bara áhuga á einu, klíniskri barnasálfræði, og er sá áhugi ekkert yfirþyrmandi mikill neitt.
Tvær stelpur sem eru með mér í sálfræðinni, þær Hjördís Eva og Þórhildur, tóku báðar kynjafræðikúrsinn Klám og vændi (3 einingar) síðasta haust og hljómaði sá ótrúlega spennandi og skemmtilegur. Kennsluskráin hefur þetta að segja:

Klám og vændi eru fyrirferðamikil deilumál í okkar samtíma. Þar togast á hugmyndir um frelsi og forsjá, kynfrelsi og mannfyrirlitningu. Stjórnvöld í hinum ýmsu löndum heims hafa tekist á við klám og vændi á mismunandi hátt, allt frá banni til lögleiðingar. Fræðimenn takast á um skilgreiningar, merkingu og forsendur þeirra svo sem hvort aðgreina beri erótík og klám, og hvort hægt sé að aðgreina frjálst og þvingað vændi. Í námskeiðinu er fjallað um klám og vændi frá kynjafræðilegu sjónarmiði og það sett í félagslegt og pólitískt samhengi. Skoðaðar eru birtingarmyndir kláms í samtímamenningu og skoðuð tengsl vændis við mansal og kynlífsþrælkun.
Flott, ég ætla að skrá mig í klám og vændi.

Uppfært klukkan 18.15: Óneeei!! Klám og vændi er ekki kennt næsta misseri. Fokk, ég er komin aftur á byrjunarreit. Klínisk barnasálfræði?

Engin ummæli: