þriðjudagur, október 11, 2005

Fyrsti hluti ferðasögunnar. New York, part I.

Við Margrét og Egill lögðum af stað í langferð þriðjudaginn 20. september sl. Á flugvellinum gat Magga ekki fengið ný batterý í úrið sitt. Í háloftunum var verið að sýna heimildaþátt um Owen Wilson og serveraður var ágætis kjúklingur. Ég sat við hliðina á syni elstu flugfreyjunnar. Honum leiddist en við hin vorum spennt.

Ég var búin að heyra margar sögur af öryggisráðstöfunum Bandaríkjamanna. Þegar allt kom til alls fannst mér þetta samt ekki svo slæmt. Við þurftum að fylla út tvo spurnigalista (þar sem meðal annars var spurt hvort maður hefði verið eitthvað tengdur nasistaflokknum í denn) og tala við tollvörð. Ég talaði við þreytta unga konu sem var með glimmer á augnlokunum. Hún skannaði inn fingrafar hægri þumalputta, spurði mig hvaða erindi ég hefði í Ameríku og óskaði mér góðrar dvalar. Hún skannaði ekki á mér augað. Eftir að við vorum búin að ná í töskurnar okkar spurði annar tollvörður mig hvaða erindi ég ætti í Bandaríkjunum. Ég sagðist vera að fara á tónleika og þá brosti hann og skammaði mig fyrir að skrópa í skólanum.

Hótelið/farfuglaheimilið sem við gistum á var ágætt til síns brúks. Heimasíðan er örlítið villandi eins og oft vill verða, en staðsetningin var góð og starfsfólkið vingjarnlegt. Herbergi okkar var búið tveimur kojum, sjónvarpi og stól. Frammi á gangi voru svo tvö baðherbergi sem við deildum með öðrum. Kojurnar voru úr stáli og ískraði talsvert í þeim í hvert einasta sinn sem einhver hreyfði sig. Þrátt fyrir það svaf ég ótrúlega vel allar næturnar.

Á miðvikudeginum fórum við á American Museum of Natural History. Það er stórkostlegt safn, risastórt með mörgum fjölbreyttum sýningum. Við vorum þarna í um 5 eða 6 tíma og samt náðum við ekki að skoða allar sýningarnar. Í nýjustu álmu safnsins, Rose Center for Earth and Space, fórum við á tvær ótrúlegar kvikmyndasýningar. Maður sat inni í kúlunni sem sést á myndinni og svo var kvikmyndinni varpað á hvolfþakið fyrir ofan mann. Mér leið eins og ég væri í alvörunni stödd lengst úti í geimnum.


Eftir safnið fórum við á Times Square og litum inn í þriggja hæða Toys´R Us búðina sem er þar. Margrét heillaði einn starfsmanninn upp úr skónum og hann leyfði henni að prófa leikfangið sem hann var að kynna. Það var einhverskonar fjarstýrður svifdiskur sem maður stýrði með einhverskonar geimbyssu. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá svifdiskinn í efra hægra horni, fjarstýringabyssuna og hluta af Margréti til vinstri. Einnig má sjá litlu saklausu stelpuna sem fékk svifdiskinn í hausinn stuttu eftir að myndin er tekin.

Um kvöldið fórum við til Heiðu, systur vinar Skúla kærasta Möggu (aah), en hún býr ásamt meðleigjanda sínum rétt hjá Union Square í kósý íbúð með risastórum partýsvölum. Þangað sóttum við magadansbúning sem Magga hafði nýlega keypt á eBay, fengum bjór og nutum útsýnisins. Síðan lá leiðin í Meatpacking District þar sem við fengum okkur að borða (ég fékk viðbjóðslega gott tíramísú í eftirrétt) og litum við á bar sem var wannabe-japanskur held ég. Mér fannst pínu óþægilegt að þurfa alltaf að vera með passann minn á mér, en án hans hefði verið ómögulegt að komast inn á staði, hvað þá að kaupa áfengi, svo ég lét mig hafa það. Kreditkort eru greinilega ekki fullnægjandi ID þó svo að þau séu með mynd.

Daginn eftir, fimmtudagur var það víst, fórum við í SoHo. Þar skoðuðum við spennandi búðir, töluðum puttamál við japanskar unglingsstelpur og öll keyptum við okkur nýja skó. Við borðuðum hádegismat á ótrúlega góðum stað þar sem leikurinn "Við skulum kaupa þetta rými, innrétta það og búa hérna!" byrjaði. Sá leikur var skemmtilegur og skaut upp kollinum með reglulegu millibili það sem eftir var af ferðinni. Egill fór að efast um hæfileika sinn til að velja eitthvað gómsætt af matseðli þegar hann fékk samloku með eggaldinsneiðum.

Áður en við lögðum af stað út á flugvöll til að taka á móti Konna ferðaling báðum við hressa lobbý-karlinn um að gera okkur greiða. "We are going to JFK to pick up our friend... Could you by any chance pretend that you think he is Kelsey Grammer´s son when we get back? It is kind of a privat-joke, but we think it is really funny." Svo fórum við með lest út á flugvöll, lentum í vandræðum með að finna terminalinn og kynntumst hressri fjölskyldu frá Californiu. Til að útvega blað og penna gripum við til nokkurra hvítra lyga ("Uhh, we´re picking up a guy and we don´t really know what he looks like, and he doesn´t know how we look like... so we really need to make a sign with his name on it.") og bjuggum til fallegt skilti með nafninu Connie Hjukket-Pungsimon Grammer rituðu á. Fyndið fyndið.
Þegar við komum heim á hótel sýndi lobbý-karlinn þvílík tilþrif í leiklistinni. Honum varð starsýnt á Konna, leit undan hugsi á svip, leit svo aftur á hann og spurði "Excuse me, are you Kelsey Grammer´s son?!" og Konni bara brosti og játti því. Við hin fengum hláturskast. Í lyftunni útskýrði Konni síðan að hann hafði bókað sig undir nafninu Konrad Jonsson (Kelsey Grammer wannabe) og því hefði hann haldið að karlinn væri að vísa til þess.

Þetta kvöld fórum við á afganskan veitingastað í Greenwich Village. Maturinn var góður en Margrét sá mús.

Framhald ferðasögunnar kemur von bráðar, haldið ykkur fast.

Engin ummæli: