fimmtudagur, desember 08, 2005

Þegar ég var lítil þótti mér óskaplega skemmtilegt að vera kitluð. Besti kitlarinn var án efa pabbi því hann lagði mikinn metnað í að byggja upp spennu, þóttist til dæmis heyra hljóð í fjarska og sagðist halda að herra Kítlus væri á leiðinni. Herra Kítlus var karakter sem pabbi umbreyttist stundum í, sérlega fyndinn fýr og óþreytandi kitlari. Kítlus og viðbrögð mín við honum er skólabókardæmi um klassíska skilyrðingu: oft þurfti pabbi ekki að gera annað en að setja upp spurnarsvip og hvísla "Heyrðirðu þetta?!" til að láta mig emja úr hlátri.

Nú hef ég hinsvegar verið "sýndarkitluð", tvisvar meira að segja, og sé ekkert annað í stöðunni en að hlýða því kalli. Svo eru víst líka próf, þá leggur maður ýmislegt á sig til að þurfa ekki að læra.

Ég get:
- Synt flugsund.
- Poppað fullkomið popp á gamla mátann.
- Sagt þér allt sem þú villt vita um Prins Valíant.
- Spilað á víólu.
- Hlegið svo mikið að það koma grísahljóð úr nefinu.
- Flautað á ýkt fönkí hátt.
- Verið ein með sjálfri mér og haft gaman af.

Ég get ekki:
- Fléttað á mér hárið eins vel og Hanna Rut.
- Prjónað.
- Borðað kæsta skötu.
- Sleppt því að snúsa á morgnanna.
- Notað hefðbundna aðferð við að bremsa á línuskautum.
- Bakað pönnukökur.
- Setið á 3. hæð bókhlöðunnar án þess að líða undarlega.

Karlmenn heilla mig með:
- Húmor og léttleika.
- Augnsambandi sem varir lengur en venjulega.
- Loðinni bringu og maga.
- Sjálfstrausti og sterklegum kjálka.
- Einlægni og skynsemi.
- Góðri lykt. Líkamslykt er góð.
- Flottum höndum.

Frægir karlmenn sem mér finnst kynþokkafullir:
- Jack Black.
- Colin Firth.
- Goran Visnjic.
- Jack White.
- George Clooney.
- Mads Mikkelsen.
- Svo er ég komin með eitthvað thing fyrir Frey Gígju Gunnarsson, fréttamann hjá Fréttablaðinu. Ég veit samt hvorki hvort hann flokkast sem frægur maður, né hvernig hann lítur út svo kannski er ég að vaða í villu og svima með því að hafa hann á þessum lista.

Ég segi oft:
- Mamma, hvað er í matinn hjá ykkur í kvöld?
- Ásdís! (þegar ég svara í síma, ég er ekki með Denny Crane syndrómið).
- Takk.
- Fokk.
- Ertu ekki að grínast?
- Koooolur!
- Má ég koma í mat?

Ég held mikið upp á:
- Risíbúðina og allt sem henni tilheyrir, líka köngulærnar.
- Ævintýri.
- Matarboð með góðum gestum.
- Fartölvuna mína og internetið.
- EirPoddinn.
- Nýja rúmið og nýju sængina.
- Gamaldags saftflösku úr gleri sem ég keypti um daginn. Hún er með smellutappa.

Ég þoli ekki:
- Að vera kalt á fæturna á kvöldin.
- Þegar fólk sem ég þekki ekki kallar mig elskuna sína eða vinu í vemmilegum tón.
- Myglu.
- Að fá gæsahúð þegar ég er með brodda á leggjunum.
- Að geta engum um kennt þegar óhreina leirtauið safnast upp.
- Væmin lög með söngkonum sem rembast við að nýta allan tónskalann.
- Þegar ég þori ekki að segja það sem mér liggur á hjarta.

Engin ummæli: