laugardagur, desember 24, 2005

Svei mér þá, ég á skilið verðlaun!

Ég er að vinna í búð nágranna minna í jólafríinu, og þar sem þau ætluðu út úr bænum um helgina átti ég að vera ein í dag. Opnunartíminn á aðfangadag er milli 10 og 12 og þau lánuðu mér litla bílinn sinn til að komast milli staða (afar fallega gert, ég hata strætó).

Vegna ábyrgðarinnar var ég pínu stressuð í gærkvöldi (eða gærnótt öllu heldur) enda þekkt fyrir yfirsofelsi og almennt vekjaraklukku ónæmi. Ég sleppti því meira að segja að hlusta á tónlist fyrir svefninn og hugsaði í staðinn "verð að vakna á réttum tíma á morgun" aftur og aftur þar til ég sofnaði. Í morgun rauk ég svo upp með andfælum klukkan hálf sjö sannfærð um að ég hefði sofið yfir mig (ég var búin að stilla vekjaraklukkuna klukkan 8:45) og þorði ekki að fara að sofa aftur af ótta við að sofna of fast. Ég fór því á fætur, eldaði hafragraut (mmm), fékk mér te og las blöðin í rólegheitunum. Klukkan hálf tíu fór ég í skóna, klæddi mig í úlpu og gerði mig líklega til að fara út. Þá fann ég ekki bíllykilinn. Hann var hveeergi.

Ég leitaði út um allt. Fór meira að segja út á götu til að athuga hvort ég hefði misst hann í gær eða skilið hann eftir í bílnum. Ég leitaði í öllum pokum og pinklum, öllum vösum og töskum, en hvergi var fjárans lykillinn. Klukkan var orðin korter í tíu og ég var næstum farin að tárast ég var svo pirruð á sjálfri mér. Ég ákvað að hringja á leigubíl og díla við lyklamissinn eftir lokun. Meðan ég beið eftir bílnum settist ég í sjálfsmorðsstigann og studdi hönd við kinn, í rusli yfir að hafa týnt bíllykli nágranna minna. Eina lyklinum að bílnum nota bene.

Þá sá ég hann! Lykillinn lá á þriðja neðsta þrepinu, akkúrat þar sem ég hafði sett hann kvöldinu áður þegar ég klæddi mig úr skónum.

Ég afpantaði leigubílinn og þaut af stað í algeru spennufalli. Djöfull var mér létt! Ég öskraði alla leiðina frá Hagamelnum að hringtorginu, kveikti svo á útvarpinu og trommaði stýrið þar til ég var komin fyrir utan búðina tvær mínútur í tíu. Jess!

Ég er ennþá með titrandi hjarta.

Engin ummæli: