miðvikudagur, mars 29, 2006

Ég er alein uppi í Odda og mér líður frekar furðulega. Það eru allskyns skrýtin hljóð í húsinu og ég hef það á tilfinningunni að það sé einhver að fylgjast með mér. Samt er ég 99% viss um að það sé enginn hérna nema ég. Áðan slokknuðu öll ljósin á 3. hæðinni, nema akkúrat yfir borðinu mínu. Svo kviknuðu öll ljósin aftur nokkrum sekúndum síðar með tilheyrandi blikki og óhugnanlegheitum. Hver er svona fyndinn? Hvar er hann? Hvað er að mér? Afhverju er ég ekki heima undir hlýrri sænginni?

Ég er að klára ritgerð í lífeðlislegri sálfræði. Er að skrifa um áhrif serotonins og áfengis á ýgi og mér hundleiðist. Annars er ýgi skemmtilegt orð. Þetta vilja þeir nota í staðinn fyrir aggression skilst mér... en ég skil ekki afhverju árásarhneigð er ekki nógu gott. Orðið ýgi minnir mig bara á mannýgt naut.

Úúúú, nú er einhver að labba upp stigann. Ætli það sé sætur Securitas gaur?

Jább, heyri hringla í lyklum.

Hvað ef þetta er brjálaður morðingi sem ætlar að skera mig á háls og stinga lyklunum sínum í augun á mér?

OK, ég heyri ekkert fótatak lengur.

Vó, ég verð að hætta að ímynda mér hluti, þetta fer illa með taugarnar mínar. Ég er með verk í maganum.

Eru til sætir Securitas gaurar? Ég efa það.

Við áttum að skila ritgerðinni fyrir lokun Læknagarðs klukkan hálf sex í dag (eða í gær, tæknilega séð). Ég var í verklegum tíma hjá kennaranum í dag og spurði hvort ég mætti skila eftir lokun ef ég myndi redda mér lykli að húsinu. Hann játti því og sagði að svo lengi sem ritgerðin væri í kassanum fyrir klukkan átta í fyramálið þá væri það í lagi. Dagbjört læknanemi lánaði mér lykilinn sinn, svo ég er...

Bíddu, halló?! Er einhver að labba uppi á þakinu? Sjitt, hvað er í gangi?

OK nei, nú er nóg komið. Ég ætla að hætta að ímynda mér hluti, klára að skrifa þessa blessuðu ritgerð, prenta hana út og drulla mér héðan. Ansans, ég er búin að hræða sjálfa mig í ræmur, hendurnar mínar titra. Ég vona að það sé enginn vondikall uppi á Læknagarði.

Gleði gleði gleði, það er allt slökkt inni í tölvustofunni. Ég er viss um að það liggi einhver í leyni þar inni. Einhver með stóra lyklakippu.

Viðbót kl. 01:41 - Nú slokknuðu öll ljós á 3. hæðinni og ég sé ekki handa minna skil. Læt ljósið frá fartölvunni lýsa mér veginn. Ég er smeyk. Ég get samt ekki farið, verð að klára ritgerðina hér því ég á ekki prentara heima. Helvítis. Ætla að færa mig niður á aðra hæð. Niður í ljósið.

Engin ummæli: