sunnudagur, apríl 09, 2006

Aaah, ég var að koma af hestbaki. Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer á bak síðan hestarnir komu úr haganum milli jóla og nýárs, og mikið vildi ég óska að ég hefði farið fyrr.

Við eigum þrjá hesta, þá dökku hérna að ofan. Þeir heita Prins, Hlynur og Fagri-Jarpur (frá vinstri). Unndór frændi minn á hvítu merina, hana Flugu. Það er mjög umdeilt innan fjölskyldunnar hvort maður megi breyta nöfnum á hestum eftir að maður kaupir þá. Mömmu þykir öll nöfnin fremur asnaleg og var næstum hætt við að kaupa Prins bara út af nafninu. Hann er nýjasta viðbótin, og þykir einkar góður í reið. Ég hef samt aldrei farið á hann.

Þetta er hann Fagri-Jarpur, hesturinn "minn". Sá sem seldi okkur hann mundi ekki alvöru nafnið hans, en sagði að hann væri oftast kallaður Jarpur. Viðbótin "fagri" er frá mömmu komin, hún er öll í því að breyta og bæta eftir hentugleika. Við áttum einu sinni hest sem hét Kuldi, en henni fannst það eitthvað svo kuldalegt, svo hún kallaði hann alltaf Jökul (sem er auðvitað miklu hlýrra nafn!).

Mér finnst mjög gaman á hestbaki, en ég finn að ég kann ekki nóg. Það stendur þó allt til bóta, einkakennsla í sumar og svona. Svo er planið að fara í hestaferð í júlí, hugsanlega Löngufjörur á Snæfellsnesi.

Áður en Prins var keyptur gat ég aldrei boðið fólki á hestbak því ég ræð ekkert við Hlyn. Nú er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu, svo ef ÞÚ ert í stuði fyrir smá útreiðartúr... sláð'áþráðinn!

Engin ummæli: