sunnudagur, apríl 30, 2006

Í nótt dreymdi mig samhengislausan draum sem er mér ekki sérlega minnisstæður. Ég man þó að fyrrverandi skólabróðir minn, hann Ibrahim, var í draumnum. Þegar ég vaknaði varð mér hugsað til atviks tengdu þeim pilti. Það var grillveisla í skólanum (æj hvor hyggeligt) og við Ibrahim vorum að spjalla saman. Ætli við höfum ekki verið svona níu eða tíu ára gömul. Í miðju samtali fór hann að horfa geðveikt sérkennilega á mig og spurði mig síðan hvernig stæði á því að ég sem væri með svo lítinn munn gæti talað svona mikið.

Ég man ekki hverju ég svaraði þá, en í morgun mundi ég mjög vel eftir þessu atviki. Í hvert sinn sem ég hef litið í spegil í dag hef ég mænt á munninn og fundist hann heldur lítill. Áðan stóð ég mig síðan að því að vera að teygja munnvikin út til hliðanna, algjörlega ómeðvitað, meðan ég var að lesa námsbækurnar.

Ég er samt ekki með sérlega lítinn munn, og ég tala ekkert óstjórnlega mikið heldur. Hvað heldur hann eiginlega að hann sé? Hnuss, að láta mig fá einhverja munnkomplexa á gamals aldri, hvurslags framkoma er það eiginlega?

Hann var samt með mjög fallegan munn minnir mig. Þykkar varir og hvítar tennur. Ég vildi að ég myndi fullt nafn hans, þá gæti ég gúglað það, fundið netfangið hans og sent honum tölvupóst (sem hæfist á reiðilestri og útlistun á ágæti munnstærðar minnar, en myndi enda á hressu og jákvæðu nótunum). Svo gæti ég látið mynd af munninum mínum fylgja. Þvílíkt kommbakk, það fær sko enginn að gagnrýna munninn minn óáreittur.

Engin ummæli: